Fimmtudagur 3. apríl 2025 10:16

Tvískinnungur í tollatali

Það er holur hljómur í kvörtunarorðum utanríkisráðherra Íslands í þessu máli þegar litið er til þess að hún vill að Ísland fari í ESB og afsali sér þar með rétti til að eiga bein samskipti um tollamál við Bandaríkjastjórn.

Donald Trump Bandaríkjaforseti kallaði það „frelsunardag“ í gær (2. apríl) þegar hann kynnti hugmyndir sínar um tolla til að styrkja efnahag og atvinnulíf í Bandaríkjunum. Frá því að alþjóðaviðskiptakerfið var mótað fyrir 80 árum undir forystu Bandaríkjanna hefur aldrei verið vegið að því á sama hátt og Trump gerir nú.

Innan þessa ramma hafa Bandaríkin orðið öflugasta efnahagsveldi heims. Nú telur Trump hins vegar ekki nóg að gert til tryggja afkomu Bandaríkjamanna og þess vegna grípur hann einhliða til þess að reisa tollamúra sem eru misháir eftir löndum en einnig eftir varningi, þannig er til dæmis lagður 25% tollur á bíla.

Lágmarkstollurinn er 10% og verður hann lagður á vörur frá Íslandi og Bretlandi. Öll önnur Evrópuríki búa við hærri tolla, Noregur 15%, ESB-löndin 20%, Sviss 31% og Liechtenstein 37%. Bretar hrósa happi yfir að standa utan ESB.

Screenshot-2025-04-03-at-10.14.17Donald Trump kynnir tollahækkanir sínar 2. apríl 2025.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, boðar að rætt verði við Bandaríkjastjórn um lækkun 20% tollsins, skili viðræðurnar engum árangri verði gripið til gagnráðstafana. Brusselmenn gera sér vonir um að þeir geti til dæmis freistað Trump með því að bjóðast til að kaupa meira af jarðgasi og olíu frá Bandaríkjunum.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra boðar að starfandi sendiherra Bandaríkjanna hér verði kallaður í utanríkisráðuneytið og honum lesinn pistillinn vegna þessa, mikið sé í húfi fyrir íslenskt atvinnulíf.

Það er holur hljómur í kvörtunarorðum utanríkisráðherra Íslands í þessu máli þegar litið er til þess að hún vill að Ísland fari í ESB og afsali sér þar með rétti til að eiga bein samskipti um tollamál við Bandaríkjastjórn fyrir utan að sæta þyngri tollum eins og nú sannast. Í Washington vita menn um þessa afstöðu ráðherrans. Kvartanir Íslands nú vegna 10% kynnu að vekja spurningar hjá einhverjum um hvers vegna í ósköpunum Íslendingum sé skipað við hlið Breta en ekki Norðmanna.

Innan lands er tal formanns Viðreisnar um að mikið sé í húfi fyrir íslensk heimili og atvinnulíf vegna 10% tolls í Bandaríkjunum hjákátlegt þegar haft er í huga að um ein vika er frá því að tveir ráðherrar úr flokki Þorgerðar Katrínar boðuðu 100% hækkun á skatti á útgerðir í landinu og kölluðu það „leiðréttingu“ sem þeir þyrftu í raun ekki að ræða við neinn.

Síðan þetta var boðað hefur rignt yfir ríkisstjórnina mótmælum úr öllum landshlutum. Ráðherrar fara með þau sem eins og hvert annað nöldur eða þau eru einfaldlega rangfærð. Engum innan sjálfumglöðu ríkisstjórnarinnar dettur í hug að 100% „leiðrétting“ hennar komi illa við þúsundir heimila í landinu.

Hættan fyrir íslenskt atvinnulíf vegna ákvörðunar Trumps felst einkum í því að í fljótræði grípi stjórnvöld til einhverra sýndaraðgerða til heimabrúks sem valdi misskilningi utan landsteinanna.

Alþjóðaviðskiptakerfið raskast vegna þessa skrefs Trumps. Aðlögun Íslands að þeim breytingum kann að verða einföld en hana má einnig flækja með ESB-brölti. Fyrir efnahag Íslands er 100% hækkun auðlindagjalds skaðvaldurinn.