Laugardagur 1. febrúar 2025 11:29

Viðreisnarvelþóknun á Ingu og Sigurjóni

Velþóknun þriggja viðreisnarráðherra á Ingu og Sigurjóni má skoða í ljósi þess að fjórði ráðherra Viðreisnar, Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra, hefur ráð Flokks fólksins í hendi sér.

Kolbrún Bergþórsdóttir bendir á það í sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kom út í dag (1. febrúar) að það hafi verið „leið venja Ingu“ [Sæland], við krefjandi spurningum, að „svara fjölmiðlamönnum með skætingi“ og yfirleitt komist „hún upp með það“.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson nefnir á Facebook í dag að viðreisnarráðherrarnir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra setji við það „velþóknunarmerki“ þegar Inga Sæland svari „réttmætum og sönnum athugasemdum um óreiðuna í samtökum hennar með skætingi“.

Screenshot-2025-02-01-at-11.27.46

Úr Morgunblaðinu 1. febrúar 2025.

Í Morgunblaðinu í dag segir að þriðji viðreisnarráðherrann, Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra, hafi ekki verið upplýst um að þingmaður Flokks fólksins, Sigurjón Þórðarson, verðandi formaður atvinnuveganefndar alþingis, hafi beinna persónulegra hagsmuna að gæta þegar rætt sé um að stórefla strandveiðar á komandi sumri.

Sigurjón á fyrirtækið Sleppa ehf. í jafnri eign á móti konu sinni og hefur fyrirtækið gert út strandveiðibátinn Sigurlaugu SK 138. Hanna Katrín sagði í sjónvarpsþættinum Spursmálum sem sendur var út föstudaginn 31. janúar að einkahagsmunir Sigurjóns kynnu að hafa áhrif á störf hans á vettvangi þingsins.

Ráðherrann sagði að Sigurjón yrði ekki „framsögumaður“ atvinnuveganefndar við stækkun strandveiðikvótans. Framsögumaður? Hver þingnefnd ákveður framsögumann í máli fyrir hana. Ráðherra ræður þar engu. Hvers vegna sagði ráðherrann ekkert um formennsku Sigurjóns í atvinnuveganefnd? Ráðherra hefur mikið um formannsvalið að segja. Hanna Katrín hefur greinilega velþóknun á Sigurjóni í nefndarformennskunni.

Samtalið við Hönnu Katrínu var tekið upp fimmtudaginn 30. janúar, daginn fyrir útsendingu þess. Fyrir útsendingu þáttarins birti Sigurjón Þórðarson undarlega færslu á Facebook-síðu sinni. Hann sagði

„Mér skilst að Stefán Einar [stjórnandi Spursmála] hafi haft miklar áhyggjur af því í viðtalinu að ég þingmaður Flokks fólksins ætti hlut í bát rétt eins og að því fygldi einhver mikil bölvun og synd. [...] Þessi fyrirsát Morgunblaðsins og aðferðir við að vekja upp óvild og tortryggni er bæði í senn grátbroslegar þ.e. í þessu tilfelli og óhuggulegar þegar þær snúast að afkomendum og öryggi Inga Sæland.“

Um afkomendur Ingu Sæland vísar Sigurjón til hörkulegs símtals hennar við skólameistara Borgarholtsskóla þegar Inga ræddi brotthvarf skópars í eigu barnabarns hennar, voru skórnir teknir í misgripum og skiluðu sér.

Skómálið rataði í fréttir Morgunblaðsins. Að kenna fréttina við óhugnað er álíka fráleitt og að Sigurjóni sé gerð fyrirsát með því að ræða hag hans af rýmri heimildum til strandveiða, báturinn aflar meira fyrir Sigurjón og hann hækkar líka í verði. Formennska Sigurjóns í atvinnuveganefnd leiðir bara til vandræða.

Velþóknun þriggja viðreisnarráðherra á Ingu og Sigurjóni má skoða í ljósi þess að fjórði ráðherra Viðreisnar, Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra, hefur ráð Flokks fólksins í hendi sér. Krefur hann Flokk fólksins um að endurgreiða 240 m. kr. í ríkissjóð eða lýsir fjármálaráðherra líka velþóknun á Ingu?