10.5.2024 9:35

Lóðatalnaleikur í ráðhúsinu

Umboðsmaður alþingis ætti að eigin frumkvæði að greiða úr þeirri flækju sem hönnuð hefur verið í ráðhúsinu vegna þessa mikla vandræðamáls. Þarna eru milljarðar í húfi hjá borg sem er stjórnsýslu- og fjárhagslega á heljarþröm.

Í byrjun október 2023 lauk umboðsmaður alþingis frumkvæðisathugun á þeim þætti sölunnar á 22,5% hlut ríkisins Íslandsbanka 22. mars 2022 sem sneri að álitaefni um hæfi fjármála- og efnahagsráðherra í tengslum við söluna. Leiddi niðurstaða umboðsmanns til þess að Bjarni Benediktsson sagði sig frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og varð utanríkisráðherra þar til hann myndaði annað ráðuneyti sitt 9. apríl 2024.

Umboðsmaður alþingis hefur ekki aðeins eftirlit með stjórnsýslu ríkisins heldur einnig sveitarfélaga. Árum saman hefur ríkt óvissa um hvernig Dagur B. Eggertsson, þáv. borgarstjóri, stóð að samningum við olíufélög um að breyta bensínstöðvarlóðum í byggingarlóðir. Málið komst enn á ný í hámæli í vikunni eftir að María Sigrún Hilmarsdóttir, fréttakona á ríkissjónvarpinu, upplýsti enn frekar um málið í Kastljósi 6. maí.

IMG_8018Ráðhús Reykjavíkur.

Við blasir að innan borgarstjórnar telur meirihluti nú rétt að hlutur borgarstjóra verði rannsakaður betur og hefur falið innri endurskoðun borgarinnar rannsóknina. Draga má í efa að starfsmönnum hennar gefist færi á að rannsaka málið á hlutlægan hátt og velta hverjum steini á meðan Dagur B. Eggertsson skipar enn valdastöðu á vegum vinstri meirihlutans í borgarstjórninni sem kaus hann sem formann borgarráðs þegar hann vék úr sæti borgarstjóra fyrir Einari Þorsteinssyni.

Til að átta sig á hve langt er seilst til að kveða niður alla gagnrýni á Dag B. vegna þessarar embættisfærslu hans má nefna að samstarfsmaður Maríu Sigrúnar á sjónvarpinu, Ingólfur Bjarni Sigfússon, ritstjóri Kveiks, rannsóknarblaðamennskuþáttar, rak hana úr Kveiks-teyminu til að hindra að efni hennar birtist þar, það fullnægði ekki gæðakröfum þáttarins.

Eitt af því sem Dagur B. taldi sér til málsbóta í yfirlýsingu eftir að Kastljósið birtist var að rangt hefði verið farið með fjölda íbúða sem mættu rísa á bensínstöðvarlóðunum. Morgunblaðið hefur síðan reynt að fá „rétta“ tölu staðfesta.

Af frétt Morgunblaðsins í dag (10. maí) má ráða að stjórnsýsla vegna framkvæmdar bensínstöðvasamninga Dags B. sé á reiki, hver vísi á annan. Blaðamaður lagði 8. maí fyrirspurn um byggingarheimildir og fjölda íbúða á bensínstöðvalóðunum fyrir Óla Örn Eiríksson, teymisstjóra athafnaborgarinnar á skrifstofu borgarstjóra, sem vísaði á Ívar Örn Ívarsson, deildarstjóra lögfræðideildar á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Borgin áætlaði í desember 2022 að 700-800 íbúðir yrðu á bensínstöðvalóðum. Í tilkynningu frá borginni þriðjudaginn 7. maí hafði hún lækkað þá tölu niður í 387-464 íbúðir. Notaði Dagur B. nýju töluna til að rýra traust í garð Maríu Sigrúnar og fréttaskýringar hennar. Hefði mátt ætla að staðfestar tölur lægju á lausu. Óli Örn tilkynnti hins vegar blaðamanni að sérstakur starfshópur ynni að samningum „um bensínstöðvar“ en hvorki hann né Ívar Örn gætu sagt neitt um tölurnar.

Umboðsmaður alþingis ætti að eigin frumkvæði að greiða úr þeirri flækju sem hönnuð hefur verið í ráðhúsinu vegna þessa mikla vandræðamáls. Þarna eru milljarðar í húfi hjá borg sem er stjórnsýslu- og fjárhagslega á heljarþröm.