8.5.2024 9:24

Dagur B. í björgunarhring

Innri endurskoðun borgarinnar á allt undir meirihluta borgarstjórnar. Það hafði dramatískar afleiðingar að borgarskjalavörður birti upplýsingar sem settu braggamálið í annað ljós en Degi B. og félögum líkaði.

Einar Þorsteinsson borgarstjóri rétti forvera sínum Degi B. Eggertssyni björgunarhring með millileik eftir afhjúpunina í Kastljósi mánudaginn 6. maí á því að Dagur B. þekkti ekki efni samninganna þegar hann breytti bensínstöðvum í arðbærar byggingarlóðir fyrir olíufélögin. Dagur B. leitaði árangurslaust að orðinu byggingarréttur í samningunum þótt hann fullyrti að það stæði þar.

„Það er ekki gott að það sé vafi á því hvernig tekjum borgarinnar er ráðstafað og hvernig samningar um lönd og lóðir eru. Því er sjálfsagt mál að láta innri endurskoðun fara ofan í saumana á þessu máli,“ segir Einar Þorsteinsson við Morgunblaðið í dag (8. maí). Meirihluti borgarráðs samþykkti 7. maí tillögu sjálfstæðismanna um að innri endurskoðun borgarinnar kannaði þá samninga sem gerðir voru við olíufélögin í skiptum fyrir byggingarrétt.

Borgarstjóri viðurkennir að í ljósi umræðu um Kastljós-þátt Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur um að móðurfélög olíufélaganna hafi fengið byggingarrétt án endurgjalds í samningum við borgina séu þau í meirihlutanum sammála um að ekkert sé „því til fyrirstöðu að láta innri endurskoðun kanna aðdraganda þessara samninga og það hvernig að þeim var staðið“.

Þegar sjálfstæðismenn lögðu fram sambærilega tillögu árið 2021um að innri endurskoðun borgarinnar færi ofan í þetta mál vísaði þáverandi meirihluti henni frá. Eftir borgarstjórnarkosningar 2022 breyttist meirihlutinn.

Einar hoppaði úr Kastljósi sjónvarpsins inn í borgarstjórn. Hann hefði getað farið að fordæmi Ingólfs Bjarna Sigfússonar, ritstjóra Kveiks, og sagt Maríu Sigrúnu ekki valda hlutverki sínu sem rannsóknarfréttamaður. Hann vissi hins vegar betur.

1344336Dagur B. Eggertsson.

Á fundi borgarstjórnar 5. mars 2024 sagði Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, borgarstjórnarmeirihlutann skulda borgarbúum skýringar á þeim „gjafagjörningi sem fram fór þegar olíufélögunum voru afhentar bensínstöðvarlóðirnar á silfurfati.“

Magnús Davíð Norðdahl, borgarfulltrúi Pírata, sagði að umræða um gjafagjörning og spillingu ætti ekki að eiga sér stað í borgarstjórnarsal heldur færi betur á því að vísa því til lögreglunnar. Marta Guðjónsdóttir sagði þá: „Ég tek undir það með honum að auðvitað þarfnast svona mál lögreglurannsóknar.“

Dagur B. svaraði og sagði: „Eruði alveg galin? Er pólitíska freistingin að reyna að koma klámhöggi á pólitíska andstæðinga svo mikil að þið eruð bara tilbúin til að segja hvað sem er? Svona bara gengur ekki!“

Hér að ofan er vitnað í það sem fram kom í Kastljós-þættinum 6. maí, tveimur mánuðum eftir að Dagur B. spurði hvort þeir væru galnir sem vildu að gjörningur hans yrði rannsakaður. Nú hefur rannsókn hins vegar verið ákveðin.

Þrýstingi var beitt innan dyra í ríkisútvarpinu til að hindra birtingu á þessum örlagaþætti Dags B. Eggertssonar. Í fyrsta sinn gerðist það í gær að Facebook tilkynnti að það sem birtist um þetta málhér á síðunni væri ekki hæft til birtingar á Facebook og var efnið fjarlægt þaðan.

Innri endurskoðun borgarinnar á allt undir meirihluta borgarstjórnar. Það hafði dramatískar afleiðingar að borgarskjalavörður birti upplýsingar sem settu braggamálið í annað ljós en Degi B. og félögum líkaði. Það á eftir að koma í ljós hvað nú gerist á bak við luktar dyr meirihlutans í ráðhúsinu. Verður loftað út eða lokið sett á innri endurskoðunina?