7.5.2024 10:59

Bensínstöðvar í blokkir?

Dagur B. situr uppi með samninga sem lýst er sem milljarða gjafagjörningum til olíufélaganna en skortir pólitískan slagkraft til að stíga næsta skref.

Eftir harða gagnrýni ákvað yfirstjórn ríkisútvarpsins að sýna þátt Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur fréttakonu um umbreytingu bensínstöðvalóða í blokkarlóðir í Kastljósi 6. maí. Birtingin var vantraust á dómgreind Ingólfs Bjarna Sigfússonar, ritstjóra Kveiks, sem rak Maríu Sigrúnu vegna þáttarins. Til þessa hafa mannabreytingar í teymi Kveiks ekki gerst á þann veg. Þaðan hverfa menn bara og síðan fréttist af þeim á Heimildinni eða hjá Landsvirkjun.

Á sínum tíma urðu oft veruleg átök í borgarstjórn Reykjavíkur vegna ákvarðana um lóðir undir bensínstöðvar. Þrír aðilar kepptu um að fá aðstöðu við umferðaræðar og sýndist sitt hverjum. Sjálfstæðismenn skiptu við Shell, framsóknarmenn við Esso og kratar við BP.

Eftir tæplega tveggja ára setu sem borgarstjóri vinstri meirihlutans ákvað Þórólfur Árnason 9. nóvember 2004 að segja af sér vegna skýrslu samkeppnisráðs um samráð olíufélaganna en Þórólfur starfaði hjá Olíufélaginu á tíunda áratugnum og er hans getið í skýrslunni.

Screenshot-2024-05-07-at-10.56.15María Sigrún Hilmarsdóttir ræðir við Dag B. Eggertsson, skjáskot úr Kastljósi 6. maí 2024.

Dagur B. Eggertsson, fyrrv. borgarstjóri og formaður borgarráðs í umboði vinstri meirihlutans, situr undir mikilli gagnrýni vegna ráðstöfunar á bensínstöðvalóðum við fækkun stöðvanna. Hann hefur hummað fram af sér að upplýsa um efni samninga sem hann gerði við olíufélögin en í samtali Maríu Sigrúnar við Dag B. í Kastljósinu er komist nær kjarna málsins opinberlega en áður hefur gerst.

Fyrrv. borgarstjóri, núverandi formaður borgarráðs, talar eins og sjálfsagt sé að lóðum sem olíufélögin fengu úthlutað fyrir bensínstöðvar á árum áður sé nú breytt, útgjaldalaust fyrir félögin, í lóðir fyrir blokkir án þess þó að minnst sé á byggingarrétt í samningunum sem hann gerði við félögin. Breyta eigi deiliskipulagi vegna samninganna.

Vigdís Hauksdóttir sat í borgarstjórn fyrir Miðflokkinn 2018-2022 og gerði meiri athugasemdir en aðrir við samninga Dags B. við olíufélögin á kjörtímabilinu. Hún segir í Kastljósi að samningarnir hafi komið eins og „þruma úr heiðskíru lofti“. Það sé ekki skattgreiðanda í Reykjavík að standa undir kostnaði við umbreytingu olíufélaganna í fjárfestinga- og fasteignafélög. „Þetta er alveg ótrúlegt þegar maður lítur í baksýnisspegilinn, raunverulega að þetta hafi náð í gegn,“ segir hún.

Þegar birt var tilkynning á vefsíðu Reykjavíkurborgar 11. febrúar 2022 um að samið hefði verið um fækkun bensínstöðva við öll olíufélögin í Reykjavík sagði að tillögur félaganna að nýbyggingum yrðu unnar í samráði við borgaryfirvöld og færu í skipulagsferli og grenndarkynningar. Næðist ekki samkomulag um uppbyggingu yrðu samningarnir uppsegjanlegir.

Síðan hefur í raun ekkert gerst á þessum lóðum annað en að sumum bensínstöðvum hefur verið breytt í samlokusjoppur, öðrum lokað og þær og aðrar sem eru enn í rekstri drabbast niður, sagði í Kastljósinu.

Dagur B. situr uppi með samninga sem lýst er sem milljarða gjafagjörningum til olíufélaganna en skortir pólitískan slagkraft til að stíga næsta skref. Örvænting hans vegna þess birtist í Kastljósinu. Mátti þess vegna ekki sýna þáttinn í Kveik?