6.5.2024 13:10

Hildarleikurinn í MÍR

Hollustan við Moskvuvaldið má sín enn mikils innan MÍR. Haukur og félagar berjast undir merkjum Kremlverja.

Sovétríkin (Ráðstjórnarríkin) liðu undir lok án átaka við nágrannaþjóðir Rússa í vestri. Nú logar hins vegar allt í ófriði á landamærum Rússlands og Úkraínu og í fleiri nágrannaríkjum Rússa ríkir ótti um framtíðina vegna hótana frá Kreml.

Félagið Menningartengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna (MÍR) var stofnað árið 1950. Þótt Ráðstjórnarríkin hyrfu á öskuhaug sögunnar starfaði MÍR áfram og kom Rússland í heiti félagsins í stað Ráðstjórnarríkjanna.

6479E346E1D85C63D253627E1E880F09420E108BCF6BA3577B278889C24A7809_1600x900

Umdeilda húsnæðið á Hverfisgötu 105.

Á aðalfundi MÍR fyrir tveimur árum var ákveðið að leggja formlegt félagsstarf þess niður en stofna sjóð til styrktar menningarlegu samstarfi Íslands og Rússlands. Til að svo gæti orðið var ákveðið að selja húseign félagsins á Hverfisgötu 105 í Reykjavík.

Fyrrverandi formaður MÍR og tveir gamlir félagsmenn sættu sig ekki við þessa ráðstöfun og stefndu stjórn félagsins fyrir dóm. Árið 2023 komst landsréttur að þeirri niðurstöðu að aðalfundurinn um niðurlagningu félagsins í núverandi mynd og sölu húseignar þess hefði verið ólöglegur. Nú hefur nýr aðalfundur verið boðaður 28. maí 2024, kl. 14.00.

Félagar í MÍR skiptast nú á ásökunum á síðum Morgunblaðsins. Jóhanna Bryndís Helgadóttir, fyrrv. framhaldsskólakennari, heldur uppi vörnum fyrir stjórnina sem vill selja húseign félagsins. Í grein 1. maí segist hún hafa sótt fund sem andstæðingar núverandi stjórnar MÍR efndu til í Laugarneskirkju. Hélt hún uppi vörnum fyrir stjórnina við litla hrifningu fundarboðenda. „Í villtustu draumum hefði maður ekki getað séð fyrir svo lúalega aðför að félaginu MÍR og stjórnarmönnum þess,“ segir hún í lok greinar sinnar.

Haukur Hauksson, magister í alþjóðamálum frá Moskvuháskóla, fréttaritari og framkvæmdastjóri, tekur upp hanskann fyrir óvini stjórnar MÍR í grein í dag (6. maí). Fólk sé „beinlínis fælt í burtu“ frá félaginu. Bönnuð séu samskipti við sendiráð Rússlands, rétttrúnaðarkirkjuna; tengsl við þúsundir rússneskumælandi íbúa og ODRÍ (vináttufélag RU-IS, undir forystu Elenu Barinovu) séu lítil. „Mannlegir samskiptahæfileikar í lágmarki, offors og einræði“ er lýsing hans á formanni MÍR.

Haukur segir að Jóhanna Bryndís og félagar ætli að stofna 200 milljón króna sjóð. Þau virðist „telja MÍR lokaðan klúbb eða sína einkaeign, e.t.v. ehf., einkahlutafélag?“ Þau séu haldin miklum misskilningi telji þau sig „holdgerving samskipta Íslands við Rússland“. Haukur viðurkennir ekki tilverurétt Úkraínu. Hann telur sig og sína menn sanna vini Rússlands.

Haukur sakar Jóhönnu Bryndísi um þá „mjög hættulegu“ heimsku að vilja „banna hið fallega tungumál rússnesku, að útiloka Tsjaíkovskí, Gógol, Púshkín o. fl. meistara hámenningar vegna stjórnmála“. Ísland sé „fremst í flokki í stríðsbrjálaðri ríkisstjórn VG“ og stefnt sé „hraðbyri“ að þriðju heimsstyrjöldinni segir Haukur. Ógnarjafnvægi í Evrópu hafi algerlega verið raskað af NATO-ríkjum og séu menn að súpa seyðið af þeim ævintýrum nú.

Þarna eru átökin í MÍR sett inn í uppgjörið við vestrið sem Pútin stofnaði til og ekki er lokið, hvorki í Evrópu né í MÍR. Hollustan við Moskvuvaldið má sín enn mikils innan MÍR. Haukur og félagar berjast undir merkjum Kremlverja.