4.5.2024 10:42

Varað við villukenningum

Dapurlegt er ef baráttan um Bessastaði er misnotuð til að halda einhverju fram um hlutverk forseta Íslands sem á sér enga stoð í veruleikanum.

Það mátti skilja eilífðarframbjóðandann Ástþór Magnússon þannig í sjónvarpsumræðum 12 forsetaframbjóðenda að kvöldi föstudagsins 3. maí að yrði hann ekki kjörinn færi hann strax til Moskvu til að binda enda á Úkraínustríðið og yfirvofandi kjarnorkustríð.

Enginn trúir þessum orðum, nema líklega Ástþór sjálfur. Hann talar ekki líkindamál heldur af sannfæringu um eigið ágæti og eigin friðarboðskap sem hann hefur slípað frá því að hann bauð sig fyrst fram til forseta Íslands fyrir 28 árum.

1489357 Fyrstu sjónvarpsumræður 12 forsetaframbjóðenda fóru fram 3. maí 2024 (mynd mbl.is/Arnþór).

Í umræðum er látið eins og forseti Íslands hafi það hlutverk að lesa lagabálka sem hann fær til undirritunar og senda það til föðurhúsanna sem honum líkar ekki. Eftir umræðurnar í gær mátti lesa á Facebook:

„Nú ríkir þingræði á Íslandi að forminu til, en það hefur verið útþynnt allrækilega með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, sem leiðir til innleiðingar afar viðamikillar löggjafar Evrópusambandsins (ESB) í íslenzka lagasafnið um málefni, sem ESB telur eiga við um Innri markað EES.“


Höfundur lýsti frambjóðanda sínum sem „neyðarhemli“ gegn löggjöf frá Brussel sem samræmdist „illa stjórnarháttum hér og stjórnarskrá“.

Þeir sem eru þeirrar skoðunar að það sé til marks um að hér ríki aðeins „þingræði að forminu til“ vegna framkvæmdar á þjóðréttarlegum skuldbindingum í samræmi við aðildina að EES fyrir 30 árum og telja sig jafnframt standa vörð um stjórnarskrá lýðveldisins ættu að rýna betur í fræðin.

Kjarni hugtaksins þingræði er að meirihluti alþingis ákveður hver fer með framkvæmdavaldið og þessi meirihluti bindur hendur forseta Íslands við stjórnarmyndanir. Ákvæði forseti til dæmis að skipa utanþingsstjórn sæti hún ekki lengur en alþingi þyldi hana.

Það er ekki hlutverk forseta að líta yfir öxlina á þingmönnum eins og það var einhvers staðar orðað. Hann getur vissulega lesið þeim pistilinn og lýst skoðunum sínum í áramótaávörpum og þingsetningarræðum en hann hefur ekkert um efni laga að segja.

Verði hann fyrir þrýstingi almennings með kröfu um að neita að staðfesta einhver lög notar hann þann þrýsting, „gjána milli þings og þjóðar“ eins og það var orðað, sem rök fyrir afstöðu sinni en ekki eigin skoðun á einstökum lagagreinum.

Að lýsa forseta sem „neyðarhemli“ vegna löggjafar sem á að tryggja að Íslendingar eigi aðgang að sameiginlega evrópska markaðnum stenst ekki skoðun að óbreyttri stjórnarskrá.

Þeir sem vilja bæta inntak og gæði laga eiga að bjóða sig fram til þings. Veruleg gagnrýni er á dómara sem stunda „framvirka lagatúlkun“ og grípa þannig fram fyrir hendur löggjafans. Að láta eins og forseti Íslands hafi „framlengt löggjafarvald“ er vitleysa.

Dapurlegt er ef baráttan um Bessastaði er misnotuð til að halda einhverju fram um hlutverk forseta Íslands sem á sér enga stoð í veruleikanum. Er brýnt að dregin séu mörk í þessu efni og varað við villukenningum.