2.5.2024 11:00

Sniglarnir á forsíðu

Það segir sína sögu um stöðu 1. maí um þessar mundir að á forsíðu Morgunblaðsins í dag (2. maí) birtist mynd af liðsmönnum Bifhjólasamtaka lýðveldisins, Sniglanna.

Eftir kröfugöngur og ræður 1. maí, á baráttudegi verkalýðsins, stendur ekkert sérstakt eftir sem gagnrýnisefni á stjórnvöld megi marka fjölmiðla.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, var annar ræðumanna á fundi á Ingólfstorgi við Aðalstræti í Reykjavík. Í frétt Morgunblaðsins segir að fjölmenni hafi verið í miðborginni, þar gekk meðal annarra hópur fólks undir fána Palestínumanna og minnti á blóðug átök og mannfall á Gaza sem hófst eftir að hryðjuverkamenn Hamas ruddust frá Gaza inn í Ísrael 7. október, myrtu almenna borgara og tóku gísla sem þeir hafa enn í haldi. Þess er nú beðið hverju Hamas svarar nýjasta tilboði Ísraela um hlé í átökunum og afhendingu gísla.

Sólveig Anna notaði ræðutíma sinn til að gagnrýna íslensk stjórnvöld harkalega fyrir stuðning þeirra við Ísrael í átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Sagði hún íslensk stjórnvöld þjást af „sjúkri undirgefni“ gagnvart Bandaríkjunum og krafðist þess að þau stæðu með fólkinu í Palestínu.

Þetta er eins og hver annar innan tómur áróður. Skömmu eftir að átökin hófust eftir hryðjuverk Hamas samþykkti alþingi ályktun vegna átakanna og hefur ríkisstjórn Íslands farið eftir henni. Að halda því fram að þar birtist „sjúk undirgefni“ gagnvart Bandaríkjunum stenst ekki.

Screenshot-2024-05-02-at-08.52.42

Það segir sína sögu um stöðu 1. maí um þessar mundir að á forsíðu Morgunblaðsins í dag (2. maí) birtist mynd af liðsmönnum Bifhjólasamtaka lýðveldisins, Sniglanna, sem óku á hjólum sínum frá Grandagarði í átt að Háskólanum í Reykjavík á sama tíma og verkalýðsfélögin efndu til kröfugöngu í miðborg Reykjavíkur.

Allt er þetta til marks um breytingar á íslensku samfélagi þar sem litið er á 1. maí sem hvern annan frídag með yfirbragði launþegabaráttu án þess að hún einkennist af sama hugsjónahita en áður.

Vilji menn kynnast heimsósómaskrifum í tilefni 1. maí má finna þau í grein eftir Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, á vefsíðu félagsins.

„Aðgerðarleysið í húsnæðismálum og botnlaust dekur við sérhagsmunaöflin er komið á það stig að útilokað hlýtur að vera fyrir almenning að sitja lengur þegjandi og hljóðalaus hjá,“ segir VR-formaðurinn og einnig: „Það ætti að vera okkur öllum ljóst að ástandið mun versna, og það mun versna þar til við höfum kjark til að rísa upp. Eins og við gerðum í búsáhaldabyltingunni.“

Hér hefur oftar en einu sinni verið vakið máls á misheppnaðri herhvöt Ragnars Þórs sem ætlaði meira að segja að bjóða fram eigin lista í þingkosningunum 2021 fyrir utan að ætla að verða forseti ASÍ þar til að hann gekk snúðugur út af fundi sambandsins vegna þess að ekki lýstu allir stuðningi við hann. Við gerð kjarasamninganna í lok febrúar 2024 sagði Ragnar Þór sig frá þeim á broguðum forsendum, líklega helst til þess eins að komast í fréttir.

Nú er hann á sama róli. Ef einhver ætti ekki að tala um sérhagsmuni í verkalýðsforystunni er það Ragnar Þór. Sagan sýnir að hann stjórnast af þeim og rær einn á báti.