1.5.2024 9:40

Friðsamur 1. maí

Umræður í tilefni 1. maí hafa mikið breyst frá því sem áður var. Nú er varla lengur minnst á stöðu þjóðarbúsins eða hag þeirra sem þar starfa og þiggja laun, hvernig tekju- og starfsöryggi þeirra sé háttað. 

Umræður í tilefni 1. maí hafa mikið breyst frá því sem áður var. Nú er varla lengur minnst á stöðu þjóðarbúsins eða hag þeirra sem þar starfa og þiggja laun, hvernig tekju- og starfsöryggi þeirra sé háttað. Virðist gengið að því sem vísu að þar sé ekki vá fyrir dyrum. Athygli beinist að húsnæðismálum og heilbrigðis- og félagslegri þjónustu.

20160501-2-copyrightrobinlund-1-mai-flagg

Í vikunni birti Viðskiptaráð Íslands yfirlit yfir íslenskt efnahagslíf á fyrri hluta ársins 2024. Þar er fjallað um hagþróun síðustu mánaða, skammtímahagvísa, þróun í utanríkisviðskiptum, samkeppnishæfni og stofnanaumgjörð, svo eitthvað sé nefnt. Í kynningu segir meðal annars:

„Íslenska hagkerfið tók kröftuglega við sér, eftir skarpa dýfu í heimsfaraldrinum. Hagvöxtur árið 2022 mældist 8,9%, en það er mesti hagvöxtur sem mælst hafði síðan 1971. Hagkerfið hélt áfram að vaxa árið 2023, þegar hagvöxtur mældist 4,1%, þar sem vöxtur í samneyslu og útflutningi vó þyngst. Gert er ráð fyrir því að hægjast muni á hagkerfinu í ár og spáir Seðlabankinn að hagvöxtur verði 1,9%.

Kröftugum hagvexti og hallarekstri ríkissjóðs, samhliða auknum umsvifum á húsnæðismarkaði og því að einkaneysla tók við sér eftir heimsfaraldur, fylgdi í kjölfarið mikill verðbólguþrýstingur. Seðlabankinn brást við því með því að auka taumhald peningastefnunnar verulega. Eftir fjórtán vaxtahækkanir í röð hafa stýrivextir haldist óbreyttir í 9,25% frá því í ágúst 2023. Hægt hefur á verðbólgunni, sem hæst fór í 10,2% í febrúar 2023, en hún stendur nú í 6%. Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að verðbólga í ár verði 5%. Verðbólguvæntingar meðal markaðsaðila til næstu fimm ára eru enn yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

Merki eru um að húsnæðismarkaðurinn sé tekinn við sér á ný eftir kólnun sem hófst um mitt ár 2022. Vísitala húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu virðist hafa náð ákveðnu jafnvægi um mitt ár 2023, en hækkaði lítillega á milli desember 2023 og janúar 2024. Velta fór að aukast á ný á húsnæðismarkaði á seinni hluta ársins 2023, samhliða fjölgun kaupsamninga.

Kjarasamningar til fjögurra ára voru undirritaðir í mars. Samningarnir kveða á um 3,25% hækkun launa á fyrsta ári samningsins og 3,5% á næstu þremur árum. Hækkunin verður þó aldrei minni en 23.750 krónur á ári hverju. Áhrif samninganna á hagkerfið í heild eiga enn eftir að koma fram, en hækkun launavísitölunnar milli mánaða í mars var 2,4%, sem má að miklu leyti skýra með samningsbundnum hækkunum.“

Myndin sem þarna birtist skýrir hvers vegna athygli er beint að öðru en almennri stöðu þjóðarbúsins þegar leitað er að baráttumálum í tilefni af 1. maí 2024. Auglýsingar stéttarfélaga í tilefni dagsins birtast til að minna á tilvist þeirra sjálfra og vekja félagsmenn til vitundar um það. Á því er full þörf miðað við litla þátttöku í kosningum innan félaganna, komi þar á annað borð til átaka um forystufólk.