18.4.2024 12:08

Samfylking boðar skattahækkun

Þarna fer ekkert á milli mála. Logi Einarsson staðfestir það sem Kristrún hefur ekki sagt berum orðum að áform Samfylkingarinnar næstu tvö kjörtímabil krefjast aukinnar skattheimtu – aukinna tekna ríkissjóðs.

Tillaga stjórnarandstöðunnar um vantraust á ríkisstjórnina var felld með 35 atkvæðum gegn 25 á ellefta tímanum að kvöldi miðvikudagsins 17. apríl eftir tæplega sex tíma umræður.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, fyrsti flutningsmaður tillögunnar viðurkenndi strax í upphafi umræðunnar um tillöguna að hún væri í raun tilgangslaus, hún yrði felld. Með Ingu á tillögunni voru þingflokkur hennar Pírata.

Inga sá sig samt knúna til að standa að þessum undarlega tillöguflutningi vegna stóryrða og heitstrenginga sem hún gaf eftir að umboðsmaður alþingis gagnrýndi embættisfærslu Svandísar Svavarsdóttur, þáv. matvælaráðherra, vegna hvalveiða. Hét Inga því þá að láta Svandísi sæta vantrausti. Þau áform runnu út í sandinn eftir að ný ríkisstjórn var mynduð undir forsæti Bjarna Benediktssonar með Svandísi sem innviðaráðherra.

Miðvikudaginn 10. apríl flutti Bjarni yfirlýsingu á alþingi í tilefni stjórnarskiptanna og þá gafst tilefni til almennra stjórnmálaumræðna og því var með öllu óþarft að flytja vantrauststillögu til að þingmenn fengju tækifæri til að viðra viðhorf sín án þess að vera bundnir af lagafrumvarpi eða málefnalegri tillögu. Þeir gátu því á ný nefnt allt sem þeir vildu í ræðum sínum á þingi 17. apríl í boði Ingu Sæland og Björns Levís.

Þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna allra greiddu atkvæði með tilgangslausu tillögunni en stjórnarþingmenn felldu hana.

Screenshot-2024-04-18-at-12.04.25Logi Einarsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, talar um vantraust á ríkisstjórnina 17. apríl 2024.

Athygli vakti að Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, lét ekki svo lítið að tala í umræðunum. Hún lýsti stefnu sinni og flokks síns í umræðum um yfirlýsingu forsætisráðherra 10. apríl og boðaði þar að hún hefði tveggja- kjörtímabila-stefnu í smíðum. Yrði kosið haustið 2025 myndi hennar stefna verða komin til framkvæmda árið 2033. Þetta sagði flokksformaðurinn um leið og hún gagnrýndi núverandi stjórnarflokka fyrir seinagang og árangursleysi.

Logi Einarsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, var aðalmálsvari flokksins í vantraustsumræðunum. Undir lok máls síns býsnaðist hann yfir því að ekki væri búið nægilega vel að ríkissjóði og sagði að ekki væri nema ein leið til að styrkja stöðu hans, að hækka tekjur hans.

Logi sagðist segja já við vantrauststillögunni og það gerði Samfylkingin einnig vegna þess að við þyrftum stjórn sem hefði „heiðarleika“ til að viðurkenna að velferðar- og heilbrigðiskerfin yrðu ekki bætt án „aukinna tekna“ ríkissjóðs. Hann sagði réttsýni að þeirra yrði aflað „þar sem nóg [væri] aflögu og þar sem þenslan raunverulega [væri]“.

Þarna fer ekkert á milli mála. Logi Einarsson staðfestir það sem Kristrún hefur ekki sagt berum orðum að áform Samfylkingarinnar næstu tvö kjörtímabil krefjast aukinnar skattheimtu – aukinna tekna ríkissjóðs.

Nú hlýtur Kristrún Frostadóttir, sem lætur jafnan eins og hún hafi meiri þekkingu en aðrir á hvernig reka eigi ríkissjóð, að hætta að tala um skattamál undir rós Samfylkingarinnar og segja okkur af „heiðarleika“ í vasa hverra hún ætlar að fara til að fjármagna tveggja-kjörtímabila-stefnu sína.