15.4.2024 10:22

Klerkaveldið vill afmá Ísrael

Árásin í Damaskus varð til að varpa skýru ljósi á áform klerkanna um að afmá Ísraelsríki eins og var markmið hryðjuverkaárásar Hamas 7. október 2023.

Útleggingar á loftárás Írana á Ísrael eru margar. Hér skulu tvær nefndar:

(1) Ísraelsstjórn hafi fyrirskipað árás á sendiskrifstofu Írans í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, til að kalla fram hefndir af hálfu klerkaveldisins í Íran. Stjórnin hafi vitað sem var að Ísraelar og bandamenn þeirra hefðu í fullu tré við her Írans en árás klerkaveldisins mundi afhjúpa þann sem stæði að baki vígamönnum Hamas, Hezbollah og Húta sem hafa umkringt Ísrael til að ná því markmiði að útrýma landi og þjóð. Þá yrði árás Írana til þess að setja átökin á Gaza í nýtt ljós og bæta ímynd Ísraela gagnvart umheiminum.

(2) Árásin hafi aðeins verið gerð til heimabrúks í Íran. Með henni hafi klerkastjórnin viljað sýna Írönum að hún léti óvini sína ekki bjóða sér allt og staðið yrði við hótun erkiklerksins um að hefndir fyrir árásina í Damaskus. Íranska ríkisfréttastofan birti myndir í þann mund sem árásin var gerð sem sýndu gífurlega hrifningu fólks á götum úti yfir sendingu flauganna í átt að Ísrael. Sérfræðingar sem rýna í myndirnar segja þær ekki trúverðugar enda láti íranskur almenningur sér fátt um finnast og klerkastjórnin fái hann ekki á sitt band með þessu.

Fotolajm-te-gjithe-te-ngrysur-vetem-netanyahu-i-buzeqeshur-dalin-pamjet-nga-mbledhja-e-kabinetit-te-luftes-se-izraelitStyrjaldarstjórn Ísraels fundar sunnudaginn 14. apríl. Óvissa er um viðbrögð hennar við árás Írana.

Á bandarísku vefsíðunni Free Press birtist sunnudaginn 14. apríl grein eftir fréttaritara hennar í Jerúsalem, Matti Friedman. Meginniðurstaða hans er að árás Írana beini athygli að „raunverulega stríðinu í Mið-Austurlöndum“. Hann segir að líkja megi árásinni við ljósleiftur í dimmu herbergi sem veiti umheiminum loks mikilvæga sýn á það sem vaki í raun fyrir ráðamönnum í Teheran, höfuðborg Írans.

Út á við sé átökunum á Gaza lýst sem stríði milli ísraelskra hermanna og almennra borgara Palestínu. Þessi lýsing varpi vondu ljósi á Ísraela. Með henni sé heilögu stríði (jihad) gegn ísraelskum minnihluta í Mið-Austurlöndum breytt í kúgun ef ekki „þjóðarmorð“ gyðinga á Palestínumönnum. Með þessum málflutningi verði umræður á Vesturlöndum um þessi mál sífellt ruglaðri.

Friedman segir rangt að tala einangrað um „átök Ísraela og Palestínumanna“. Hér sé um aldargamla deilu múslímskra araba og gyðinga að ræða þar sem Palestínumenn hafi ekki verið fremstir í flokki stríðsmanna araba og mörg fórnarlambanna úr hópi gyðinga hafi ekki verið Ísraelar. Um þessar mundir einkennist átökin einnig af ágreiningi milli sjía-múslíma (Íranir) og súnníta (Sádí-Arabar, Jórdanir auk gyðinga) með Bandaríkjamönnum í liði.

Friedman segir að árásin á Ísrael ætti að skýra sýn efasemdarmanna á átökin á Gaza, þau séu liður í vaxandi völdum Írans og vilja klerkaveldisins til að herða kverkatökin á Ísraelum. Sé litið á málin í þessu samhengi verði auðveldara að skilja framgöngu Ísraela og andstæðinga þeirra.

Hvort sem það er rétt eða ekki í kenningu (1) hér að ofan að fyrir Ísraelsstjórn hafi vakað að kalla fram reiði klerkaveldisins 1. apríl varð árásin í Damaskus til að varpa skýru ljósi á áform klerkanna um að afmá Ísraelsríki eins og var markmið hryðjuverkaárásar Hamas 7. október 2023.

Friedman þakkar Íransstjórn fyrir að hafa loks gengið fram og gert greinendum þann greiða að eyða öllum vafa um hvað þetta stríð snýst og hverjir berjist þar.