29.3.2024 10:47

Áminning föstudagsins langa

Föstudagurinn langi er áminning um grimmd og miskunnarleysi mannskepnunnar. 

Aðfaranótt föstudagsins langa (29. mars) sendi flugher Úkraínu frá sér tilkynningu um að flugskeytum hefði verið skotið frá Tu-95MS rússneskum sprengjuvélum. Skömmu fyrir miðnætti hafði birst viðvörun um að fjórar slíkar sprengjuvélar hefðu hafið sig til flugs frá Olenja-flugvelli í Múrmansk-héraði.

Norska vefsíðan Barents Observer segir að af öðrum heimildum megi ráða að sjö langdrægar Tu-95 sprengjuvélar hefðu flogið af stað frá Olenja aðfaranótt föstudagsins langa.

Tu-95_wingspanTu-95 sprengjuvél.

Það tekur um klukkustund að aka til Olenja í suður frá Múrmansk. Flugvöllurinn er í um það bil 100 km fjarlægð frá landamærum Finnlands og 150 km frá norðurlandamærum Noregs. Herir beggja NATO-ríkjanna ráða yfir ratsjám sem greina alla flugumferð um Olenja. Það eru um 1.800 km frá flugvellinum til landamæra Úkraínu.

Á vefsíðunni Kyiv Independent segir loftárásir hafi verið gerðar á næstum hvert hérað í Úkraínu, þar á meðal borgina Lviv skammt frá pólsku landamærunum í vestri. Sírenur vældu því um landið allt aðfaranótt helgidagsins og þóttu ekki góður fyrirboði um það sem í vændum væri um páskahelgina sjálfa.

Fyrir utan sendingarnar úr vígvélunum frá Olenja-flugvelli á Kólaskaga ráðast Rússar á Úkraínu með drónum, MiG-31K flugvélum og Iskander-eldflaugum frá skotpöllum á Krím, Begorod og Kursk segir flugher Úkraínu.

Árásir Rússa í nótt beindust einkum að orkuvirkjum í Úkraínu, hitaveitum og vatnsorkuverum.

Með hliðsjón af fyrri flugskeytaárásum Rússa í nágrenni Póllands ákvað herstjórn landsins að virkja eigin orrustuþotur og annarra NATO-ríkja til að verja pólska lofthelgi. Voru íbúar í suðausturhluta Póllands varaðir við hávaða sem orrustuþoturnar kynnu að valda.

Um liðna helgi var rússnesk stýriflaug í stutta stund yfir Póllandi á leið til skotmarks í Úkraínu. Þá voru pólskar orrustuþotur einnig sendar á vettvang.

Þetta er raunveruleiki í Evrópu um páska 2024 eftir að Rússar hafa háð innrásarstríð í rúm tvö ár í Úkraínu.

Enginn veit hvernig eða hvenær átökunum lýkur og búa Evrópuríkin sig undir að æ meira reyni á framlag þeirra til að tryggja vígstöðu Úkraínumanna. Í því skyni hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að leggja fé í sjóð sem Tékkar ráðstafa til vopnakaupa fyrir Úkraínumenn.

Athygli vekur að í andstöðu við hlutdeild Íslendinga í þessu sameiginlega átaki til að styrkja varnir Úkraínu að frumkvæði Tékka sameinast þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og Ögmundur Jónasson, fyrrv. ráðherra, sem skipar sér gjarnan yst á vinstri kantinn og er andvígur þátttöku Íslands í NATO.

Það er hættuleg ímyndun að Íslendingar geti setið sem áhorfendur að hildarleiknum í Úkraínu og að hjásetan sé raunhæf trygging fyrir að þeir fái í friði að dunda við það sem þeim sýnist.

Föstudagurinn langi er áminning um grimmd og miskunnarleysi mannskepnunnar.