17.7.2023 11:34

Álitsgjafi fellur á eigin prófi

Upphrópanir andstæðinga Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um lélega fjármálastjórn ríkisins verða hjáróma við mat óhlutdrægra aðila.

Vegna þess hve vel horfir um afkomu og skuldir ríkissjóðs og hraðan efnahagsbata hafa tvö alþjóðleg matsfyrirtæki, S&P Global Ratings og Moody‘s, nýlega fært lánhæfismat ríkissjóðs í jákvæðar horfur. Þriðja fyrirtækið færði horfur fyrir ríkissjóð af neikvæðum í stöðugar fyrr á árinu.

Hvað eftir annað hafa borist fregnir um það undanfarið að afkoma ríkissjóðs sé umfram væntingar. Í ár er útlit fyrir að tekjur ríkissjóðs verði nærri 50 ma. kr. hærri en útgjöld ef frá eru talin vaxtatekjur og -gjöld. Skuldahlutföll ríkissjóðs eru einnig stöðug og útlit fyrir að þau lækki næstu árin.

Matsfyrirtækin telja öll að góðir og stöðugir stjórnarhættir, hátt menntunarstig og hagstæð lýðfræðileg samsetning þjóðarinnar styðji við lánshæfið. Fábreytni íslensks efnahagslífs og næmni þess gagnvart ytri sveiflum dregur einkunnina aftur á móti niður þótt landsframleiðsla á mann sé mikil, segir í tilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Þar kemur einnig fram að meðal annars af þessum sökum hafi ríkissjóður á undanförnum árum lagt mikla áherslu á stuðning við rannsóknir og þróun. Markmiðið sé að fjölga undirstöðum hagkerfisins og auka þar með hagsæld og viðnámsþrótt.

„Umgjörð um nýsköpun á Íslandi er bara best í heimi. Það er hvergi betra að vera nýsköpunarfyrirtæki en á Íslandi,“ sagði Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi Kerecis á Ísafirði, í viðtali við Kristján Kristjánsson á Sprengisandi Bylgjunnar sunnudaginn 9. júlí þegar rætt var við hann um frábæran árangur Kerecis og söluna á fyrirtækinu fyrir nær 180 milljarða króna.

Screenshot-2023-07-17-at-11.31.43

Upphrópanir andstæðinga Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um lélega fjármálastjórn ríkisins verða hjáróma þegar óhlutdrægir aðilar leggja mat á árangurinn við efnahagsstjórnina.

Lygar og hálfsannleikur einkenna andróður stjórnarandstæðinga gegn Bjarna eins og til dæmis má sjá í grein sem Sif Sigmarsdóttir í London birti á Heimildinni laugardaginn 15. júlí þar sem hún notaði Lindarhvolsskýrsluna sem haldreipi í gagnrýni sinni á Bjarna og gaf meðal annars til kynna að Bjarni hefði að eigin frumkvæði stofnað félagið Lindarhvol til að selja ríkiseignir úr slitabúum föllnu bankanna. Orð Sifjar bera með sér að hún hefur ekki lesið langar útlistanir setts ríkisendurskoðanda í hálfkaraðri skýrslu hans um fyrirmæli alþingis um að stofna skyldi Lindarhvol og þess skyldi gætt að hvorki seðlabankinn né fjármálaráðuneytið gætu þar haft nokkur afskipti.

Þá lætur Sif þess ógetið að ríkisendurskoðun gaf út skýrslu um Lindarhvol í apríl 2020 og ríkisendurskoðandi, arftaki setta ríkisendurskoðandans, bannaði birtingu hálfunnu skýrslunnar, skjalið stæðist ekki kröfur ríkisendurskoðunar um vönduð vinnubrögð.

Hlálegast við þessa grein frá London er að hún snýst um mikilvægi metnaðar í opinberum umræðum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem gagnrýnendur Bjarna falla á eigin prófi. Einkunnir ríkissjóðs sýna hins vegar að stjórnendur hans standa sig vel að mati alþjóðlegra einkunnargjafa.