8.7.2023 9:40

Skjallvinum fagnað

Össur segir að þeir Ólafur Ragnar leiti „ráða hvor hjá öðrum“. Er ekki að efa að þeir ráðgist um hvernig þeir geti nýtt fjármunaflæði alþjóðavæðingarinnar sem best.

Ýmsir þjóðkunnir samferðarmenn fagna stórafmæli í ár. Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um þessa helgi ræðir Kolbrún Bergþórsdóttir við einn þeirra, Össur Skarphéðinsson, sjötugan. Fyrr á árinu varð stórvinur hans og fyrrverandi samstarfsmaður á ritstjórn Þjóðviljans á níunda áratugnum, Ólafur Ragnar Grímsson, áttræður.

Í viðtalinu segir Kolbrún að Ólafur Ragnar hafi haldið „afar snjalla ræðu“ í afmæli Össurar. Það var haldið í gamla Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll – að sjálfsögðu.

Össur segir að þeir Ólafur Ragnar leiti „ráða hvor hjá öðrum“. Er ekki að efa að þeir ráðgist um hvernig þeir geti nýtt fjármunaflæði alþjóðavæðingarinnar sem best heiminum og sjálfum sér til góðs eftir að þeir hættu að gegna kjörnum trúnaðarstörfum fyrir land og þjóð.

Össur segir að hann sé að ósk annarra starfandi formaður í litlu fyrirtæki, YES.EU, sem flytji rafmagnsknúna almenningsvagna frá Kína til Evrópu. Á íslenskan mælikvarða sé fyrirtækið að verða nokkuð stórt í veltu, með starfstöðvar í fimm Evrópulöndum og opni senn þá sjöttu. Þá sé hann ráðgjafi sjálfstæða franska orkufyrirtækisins Quair vegna áforma þess um að virkja á Grænlandi til að framleiða vetni. Telur hann líklegt að Grænlendingar taki frekar tilboði Quair en fyrirtækja sem ætla að virkja til að hefja málmbræðslu.

468997Ólafur Ragnar Grímsson og Össur Skarphéðinsson með emírnum í Katar (mynd: mbl.is).

Í laugardagsblaði Morgunblaðsins (8. júlí) er sagt frá því að föstudaginn 7. júlí hafi verið tilkynnt um kaup danska heilbrigðisrisans Coloplast á íslenska lækningavörufyrirtækinu Kerecis fyrir jafnvirði 180 milljarða íslenskra króna. Ísfirska fyrirtækið Kerecis hefur náð einstæðum árangri undir forystu Guðmundar Fertrams Sigurjónssonar, forstjóra þess og stofnanda.

Ólafur Ragnar gefur til kynna eins og félagi hans Össur að hann hafi fengið tilboð sem hann gat ekki hafnað og ekki staðist freistinguna þegar hann var beðinn um að setjast í stjórn Kerecis fyrir hönd Lauren Powell Jobs, ekkju Steve Jobs sem jafnan er kenndur við Apple og andaðist um aldur fram.

„Við Ólafur höfum á seinni árum verið í gagnkvæmu skjallbandalagi,“ segir Össur í viðtalinu við Kolbrúnu sem spyr hvort hugmyndafræðilegur ágreiningur hafi verið milli hans og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem ýtti honum úr formannssæti Samfylkingarinnar.

Hann segir að það hafi verið „núansar“, hún hafi hallast að Tony Blair en sjálfur hafi hann ekki gert það. Ingibjörg Sólrún hafi hallast að Baugsveldinu sem hann gerði ekki.

Össur rifjar upp að þegar þeir Ólafur Ragnar voru saman við ritstjórn Þjóðviljans hafi þeir gert atlögu að íslenskum stórfyrirtækjum sem hann kallar nú „ættarveldin í Sjálfstæðisflokknum“ en þeir kölluðu þá „ýmist kolkrabbann eða fjölskyldurnar fjórtán“.

Þá voru ekki spöruð stóru orðin og þau féllu jafnvel enn þyngri um alþjóðlega auðhringa og hættuna af þeim. Peningamenn og alþjóðleg fjárfestingafélög eru nú á efri árum helstu gleðigjafar þeirra félaga. Össur tapar samt enn gleði sinni þegar hann minnist á Sjálfstæðisflokkinn og vill hann norður og niður. Enginn flokkur hefur þó lagt meira af mörkum til að skapa þeim skjallvinum svigrúm til athafna og alþjóðlegrar sóknar en einmitt Sjálfstæðisflokkurinn.