2.6.2023 10:03

Skortstefna í skömmtunarborg

Skortstefna getur jafnan af sér skömmtunarvald og þá verða til forgangshópar sem njóta sérkjara hjá handhöfum skömmtunarvaldsins.

Í grein í Morgunblaðinu í dag (2. júní) segir Vilhjálmur Bjarnason, fyrrv. alþingismaður, að raunverð fasteigna hafi verið mjög stöðugt í landinu 1980 til 1998 en þá hafi hafist tími verðhækkana sem standi enn.

Á árum stöðuga verðlagsins var stöðugt framboð á lóðum í Reykjavík eins og best sést á Grafavogshverfinu sem þá kom til sögunnar.

Vilhjálmur segir að ástæða verðhækkunar á húsnæði hafi verið einföld: á árunum 1998 til 2000 hafi verið „byggðar jafn margar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og árið 1954“. Afleiðingin af þessum fáu nýju íbúðum hafi orðið skortur.

„Skortur á vöru og þjónustu leiðir til verðhækkunar. Tímabil verðhækkunar stendur enn. Þessi skortur leiðir til skerðingar lífskjara og mælist í neysluverði,“ segir Vilhjálmur Bjarnason.

Við erum sem sagt enn að súpa seyðið af verðhækkanaskriðu sem rekja má til lóðaskortstefnu í Reykjavík sem hófst með valdatöku vinstrisinna undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og merkjum R-listans árið 1994.

Nú ber hátt lóðir í „nýjum Skerjafirði“ sem skerða öryggi Reykjavíkurflugvallar og af aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag má ráða að vinstri meirihluti Dags B. ætli að beita sérgreindum forgangshópum, námsmönnum, ungu fólki og fyrstu kaup­end­um og lágleigufélagi „án hagnaðarsjónarmiða“ fyrir sig við úthlutun lóðanna.

Skerjafjardarbyggd-3-1„Nýi Skerjafjörður“ efst til hægri á myndinni.

Skortstefna getur jafnan af sér skömmtunarvald og þá verða til forgangshópar sem njóta sérkjara hjá handhöfum skömmtunarvaldsins. Þessu er greinilega þannig háttað í „nýja Skerjafirði“ og á öðru nálægu svæði í Vatnsmýrinni sem kennt er við vísindagarða svo að ekki sé minnst á bensínstöðvalóðirnar sem ráðstafað er með sérstakri leynd af sjálfum borgarstjóranum.

Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG Verks, undraðist í Morgunblaðinu í gær (1. júní) dræm viðbrögð borgarinnar við umsókn fyrirtækisins um lóðir undir 900 hagkvæmar íbúðir. Búið væri að tryggja fjármögnun og ekkert að vanbúnaði að hefja framkvæmdir og vinna þannig á íbúðaskorti.

Óli Örn Eiríksson, teymisstjóri athafnaborgarinnar á skrifstofu borgarstjóra, bregst við þessari gagnrýni frá ÞG Verki með þeim orðum í Morgunblaðinu í dag að ekki sé „hægt að taka einstaka umsækjendur um byggingarlóðir fram fyrir í röðinni. Allir verði að lúta sömu skilmálum“.

Skortstefnan hefur ekki aðeins leitt til forgangsröðunar skömmtunarstjóranna við lóðaúthlutanir eins og að ofan er lýst heldur er einnig til biðlisti þar sem allir verða að „lúta sömu skilmálum“ til að unnt sé að viðhalda skortinum og skömmtunarvaldinu. Nú gildi sú regla í borginni að hún megi ekki „úthluta lóðum beint til einkaaðila“.

Þá gefur „teymisstjóri athafnaborgarinnar“ til kynna að ríkisvaldið setji borginni skorður með þaki á fjölda byggingarhæfra lóða. Þar er líklega vísað til samspils framsóknarmannsins sem verður borgarstjóri og framsóknarmannsins sem er innviðaráðherra. Verðandi borgarstjóri geti skotið sér á bak við ráðherrann til að verja skömmtunarstefnu skortborgarinnar.