29.3.2023 9:18

Stjórnin undir álagi

Betri blær á stjórnarsamstarfinu, bætti stöðu stjórnarflokkanna. Á því verður að taka. Framtíðin ræðst ekki af þrasi undir liðnum störf þingsins eða fundarstjórn forseta!

Eins og kannanir sýna vegnar stjórnarflokkunum ekki vel á öðru kjörtímabilinu sem þeir eiga samstarf undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur. Lítið fer fyrir því í opinberum umræðum að ástæða óvinsældanna sé brotin til mergjar fyrir utan umræður um hækkun verðbólgu, vaxtahækkanir vegna þess og þrengingar í húsnæðismálum.

Þrátt fyrir hrakspár í september og október um að allt færi í háaloft á vinnumarkaði vegna kjaradeilna tókst aðilum vinnumarkaðarins að leysa úr ágreiningi sín á milli. Vandræði urðu að vísu vegna sérgæslu Eflingar undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur sem aldrei ætlaði sér að semja og losnaði úr vandræðunum með miðlunartillögu setts ríkissáttasemjara.

Opinberir aðilar hafa ekki enn samið við starfsmenn sína. Vegna verðbólgunnar er krafan um aðhald að ríkissjóði mjög ströng. Fjárlagaáætlun til næstu ára verður birt í vikunni og leggur hún grunn að umræðum um hvernig best sé að taka á ríkisfjármálunum komandi misseri.

Nú undanfarna sólarhringa hafa náttúruöflin minnt á sig með snjóflóðum í Norðfirði og samgöngutruflunum þannig að aðeins er unnt að komast á milli fjarða fyrir austan á sjó. Ríkir óvissa um afleiðingar veðurs út þessa viku.

1405122Varðskipið Þór flutti vistir til Neskaupsstaðar (mynd: mbl.is/Eggert Jóhannesson).

Reynir enn á ný á almannavarnakerfið og varnarbúnað gegn nátturuvá. Samdóma álit er að snjóflóðavarnir í Norðfirði hafi staðist áraunina og fumlaus viðbrögð þeirra sem stjórna almannavörnum vekja öryggiskennd, megi marka fréttir. Varðskipið Þór var sent á vettvang. Við hönnun þess og allan búnað var meðal annars tekið mið af því að skipið gæti gegnt mikilvægu hlutverki við aðstæður sem þessar.

Áætlanir um viðbúnað eru reistar á því að landhelgisgæslan ráði yfir þremur þyrlum og áhöfnum í samræmi við það. Þar varð truflun á öryggisþjónustu vegna langvinnrar kjaradeilu þyrluflugmanna við ríkið – er óskiljanlegt að ekki sé unnt að leysa hana.

Það er yfirbragð stjórnmálanna og skortur á úrræðum til að ráða við kerfislegan vanda innan stjórnsýslunnar og stjórnkerfisins sem einkum veldur óþoli og óánægju almennings og verður hvati að því að hróp og köll verða á alþingi eins og í gær þegar enn einu sinni kom til harðra orðaskipta þingmanna vegna hlutverks þeirra við að veita ríkisborgararétt.

Veiting ríkisborgararéttar er í eðli sínu stjórnsýsluákvörðun sem taka skal á grunni reglna sem settar eru af alþingi og ráðherra með reglugerð. Hefð er hins vegar fyrir því hér og heimilt samkvæmt stjórnarskrá að þingmenn taki sjálfir ákvörðun um ríkisborgararétt sé sótt um hann til þingsins. Þessi aðferð hefur kosti og galla eins og allt. Gallarnir eru hætta á að geðþótti ráði en ekki hlutlægar reglur. Um þessa galla er rifist hvað eftir annað í þingsalnum. Sauð upp úr í gær þegar einhverjir þingmenn töldu dómsmálaráðherra vega að heiðri sínum.

Betri blær á stjórnarsamstarfinu, bætti stöðu stjórnarflokkanna. Á því verður að taka. Framtíðin ræðst ekki af þrasi undir liðnum störf þingsins eða fundarstjórn forseta!