7.2.2023 11:08

Firring stjórnarandstöðunnar

Annars vegar er alþingi haldið í gíslingu með málþófi Pírata og hins vegar neita sósíalistar að fara að lögum og fyrirmælum ríkissáttasemjara.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (ÞKG), formaður Viðreisnar, „bar af sér sakir“ á alþingi í gær (6. febrúar) vegna orða forsætisráðherra um að árið 2016 hefði hún sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipað starfshóp sem nefnd er í nýrri, gagnrýnni skýrslu ríkisendurskoðunar um stjórnsýslu vegna sjókvíaeldis. Það hefði verið Gunnar Bragi Sveinsson Framsóknarflokki sem skipaði starfshópinn, hún (ÞKG) hefði tekið við skýrslunni sem ráðherra.

Þegar ÞKG lauk máli sínu sagði þingforseti Birgir Ármannsson að það væri „nú á mörkunum ... að tala um sakir þegar talað er um leiðréttingu eða mismæli í sambandi við skipun starfshópa“.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra bað ÞKG afsökunar: „Ég hafði einfaldlega rangar upplýsingar og það getur hent besta fólk.“

4402w_BigIdea_Filibuster_01c8ac7cc3b849e525e370bc51344120Hefði mátt ætla að þar með hefðu þingmenn annað og mikilvægara að ræða. Svo reyndist hins vegar ekki, við tóku siðavandanir af hálfu Helgu Völu Helgadóttur Samfylkingu og skoðanasystkina hennar meðal Pírata.

Helga Vala bað nú um orðið undir liðnum fundarstjórn forseta og sagði það „svolítið hvimleiðan ávana“ hjá Birgi Ármannssyni þingforseta „að vera sífellt og endalaust að setja ofan í við það sem hv. þingmenn, þjóðkjörnir þingmenn þessa lands, leyfa sér að segja í pontu“. Hann yrði að „láta af þessum ósið af því að þetta [setti] þingið niður“.

Þingforseti sýndi Helgu Völu þá virðingu að svara henni, hefði hann „talað ógætilega eða gengið of langt að þessu leyti í athugasemdum“ sínum bæðist hann „afsökunar á því“. Umburðarlyndi þingforseta ber vott um ríkan vilji til að greiða fyrir þingstörfum.

Píratar mátu þó orð forseta einskis og röðuðu sér á mælendaskrá um fundarstjórn forseta.

Andrés Ingi Jónsson sagði að ÞKG hefði „auðvitað“ þurft að bera af sér sakir, forsætisráðherra hefði sent ÞKG „skítapillu“, ríkisstjórnin gæti „bara átt sitt slor í friði og hætt að reyna að maka því á okkur hin, þetta er bara þeirra slor“.

Björn Leví Gunnarsson gaf ekkert fyrir afsökun forseta, þetta hefði verið „efsökun“.

Lenya Rún Taha Karim hélt sér ekki við fundarstjórn forseta heldur hóf spurningaleik við forsætisráðherra í þessari „agalegu stjórn“ um útlendingamál.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir ræddi einnig útlendingamál og sagði við þingmenn: „Þið vitið ekki hvað þið eruð að samþykkja.“

Við svo búið héldu Píratar áfram málþófi sínu um útlendingafrumvarpið. Þar ræða þeir hver við annan í andsvaraleik og ýta undir eigin ranghugmyndir.

Þjóðmálastaðan er nú þessi:

Annars vegar er alþingi haldið í gíslingu með málþófi Pírata og hins vegar neita sósíalistar að fara að lögum og fyrirmælum ríkissáttasemjara.

Firring stjórnarandstöðunnar birtist á alþingi í ádeilu á þingforseta vegna athugasemdar um að það jafnist varla á við að bera af sér sakir að leiðrétta mismæli.