3.2.2023 9:17

Reynslan af TF-SIF

Hér skal haldið til haga ummælum þriggja sérfræðinga sem birtust á ruv.is fimmtudaginn 2. febrúar 2023 um reynsluna af TF-SIF

Hugmyndir Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra um að selja flugvél landhelgisgæslunnar, TF-SIF, mælast ekki vel fyrir hjá þeim sem þekkja kosti hennar. Hér skal haldið til haga ummælum þriggja sérfræðinga sem birtust á ruv.is fimmtudaginn 2. febrúar 2023.

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði segir að vélin hafi margsannað notagildi sitt, meðal annars í eldgosi í Holuhrauni og Eyjafjallajökli. „Ja, ég verð nú að segja að ég hef sjaldan orðið jafnhissa og þegar ég sá þessa frétt núna áðan. Ég verð að játa að ég skil þetta ekki, að þetta skuli vera að gerast.“ Vélin sé ómissandi hluti af fyrsta viðbragði þjóðar, sem býr við sífellda náttúruvá. Fyrirsögn fréttarinnar er: Eins og ef lögreglan seldi alla bíla sína og færi fótgangandi í útköll.

29082014_Golli_IMG_29-08-14_11-38-53-4-Magnús Tumi Guðmundsson prófessor skoðar Holuhraun úr TF-SIF 29. ágúst 2014 (mynd: Landhelgisgæslan).

Kristín Jónsdóttir, jarðfræðingur og deildarstjóri þjónustu og rannsóknasviðs hjá Veðurstofunni, segir söluna mikil vonbrigði. „Vegna þess að hérna erum við að tala um vél sem getur heldur betur hjálpað okkur í stórum atburðum. Við erum að tala um krítíska atburði eins og Eyjafjallajökulsgosið. Hún getur horft skáhallt og til hliðar í gegnum gosmökk og séð það sem ekki verður séð með berum augum. Og það koma sprengigos þar sem við þurfum á þessari vél að halda.“

„Hvað ætlum við að gera þegar kemur Kötlugos? Og við sjáum ekki neitt fyrir gosmekki, ætlum við að bíða í marga daga eftir að fá upplýsingar úr gervitunglum“, spyr Kristín. Sprengigos eru algengustu eldgosin hérlendis, þó undanfarið hafi orðið talsvert af flæðigosum.

Hún gefur lítið fyrir skýringar dómsmálaráðherra um að flugvélin sé hvort eð er í lítilli notkun hérlendis. Öryggið felist í að geta kallað hana heim í neyðartilfellum og það sé mjög reglulega til umræðu hjá vísindaráði, hvort þurfi að kalla TF-SIF til landsins.

„Það er hægt að kalla hana heim á svona 5-8 klukkustundum og þetta er eitthvað sem við viljum geta gert.“

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnarsviðs hjá ríkislögreglustjóra: „Manni var bara brugðið í sjálfu sér og var bara hálf orðlaus til að byrja með og átta sig á hvað raunverulega væri í gangi því þegar þessi flugvél var keypt þá tókum við þátt í margra ára greiningarvinnu, í fyrsta lagi hvort það ætti að vera til flugvél til hvers hún væri notuð og hvaða búnaður ætti að vera í henni og maður vonar að svona ákvörðun sé ekki byggð á öðru heldur en að menn hafi farið í ítarlega greiningarvinnu hvort að þetta sé eina leiðin það er það minnsta sem menn geta gert en við höfum áhyggjur að svo sé ekki allavega höfum við ekki tekið þátt í neinni slíkri vinnu undanfarið. [...] Við töldum þetta gríðarlegt framfaraskref þegar þessi vél kom þannig að það væri mikil afturför ef þetta væri raunin.“

Boðað er að þingnefndir ætli að fjalla um tillögu ráðherrans en hún er lögð fram án söluheimildar í fjárlögum. Ráðherrann segist hafa kynnt málið með minnisblaði í ríkisstjórn, einhvern tíma í janúar en mundi ekki daginn í sjónvarpsviðtali.