31.1.2023 11:17

Bloggið í skýjunum

Menn geta auðveldlega haslað sér völl í netheimum og þar má nálgast þá í skýjunum hvaðan sem er og eiga skoðanaskipti ef svo ber undir.

Utanríkisráðuneytið hélt föstudaginn 26. janúar opið málþing í Grósku til heiðurs fyrsta íslenska kvensendiherranum, Sigríði Snævarr. Bar málþingið heitið: Sækjum fram í breyttum heimi. Sigríður Snævarr hóf störf í utanríkisþjónustunni árið 1978 en hún var skipuð sendiherra í Svíþjóð 1. febrúar 1991. Á málþinginu flutti Bergur Ebbi Benediktsson (f. 1981) fyrirlesari, rithöfundur og lögfræðingur erindið Borg í ský.

IMG_6440Sigríður Snævarr, fyrrv, sendiherra, og Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utaníkisráðuneytisins, ræða saman á málþinginu í Grósku 27. janúar 2023.

Þemað í erindi Bergs Ebba var um sálina í sveitinni þegar landsmenn fluttu þaðan til borgarinnar og urðu að kenna sig við annað en bæjarheiti í sveitinni, finna sér nýjan bás. Hann væri nú að hverfa, allt færðist í ský netheima. Hvað eina sem þá varðaði væri að finna í skýi í eign og vörslu tæknirisa. Hvernig ættu þeir að finna sinn bás?

Í Fréttablaðinu í dag (31. janúar) vekur Þórarinn Þórarinsson blaðamaður athygli á að að Ólafur Ísleifsson, fyrrverandi alþingismaður, hafi 25. janúar 2023 haslað sér völl á Moggablogginu gagngert til þess að bregðast við efni sem birtist hér á síðunni daginn áður. Af þessu tilefni segir Þórarinn um Ólaf : „Seint koma sumir og koma þó.“

Ólafur sagði við Þórarin „Ég þurfti að bregðast við bloggi Björns og þetta form sýndist hentugt í því skyni.“

Þórarinn sneri sér til mín og birtir svarið undir millifyrirsögninni: Frumherji fagnar nýliðun, þar segir:

„Já, það er fagnaðarefni að þriðji orkupakkinn og umræður um hann urðu til þess að Ólafur Ísleifsson bættist í hóp okkar bloggaranna. Að blogg á bjorn.is skuli hafa kveikt áhuga hans á þessari samskiptaleið er þeim mun ánægjulegra vegna þess að einmitt nú um mánaðamótin janúar/febrúar 2023 eru 28 ár frá því að bjorn.is fór í loftið,“ heldur Björn áfram en eins og árafjöldinn ber með sér var hann meðal þeirra fyrstu sem byrjuðu að blogga af alvöru hér á landi.

„Innkoma Ólafs er til marks um að áhrif síðunnar halda og eru enn mikil og vaxandi.““

Menn geta auðveldlega haslað sér völl í netheimum og þar má nálgast þá í skýjunum hvaðan sem er og eiga skoðanaskipti ef svo ber undir. Þetta má gera á eigin bloggi og vefsíðum eða á svonefndum samfélagssíðum eins og Facebook, Twitter, TikTok eða Telegram og athugasemdakerfum þeirra. Þarna er lifandi heimur, svo öflugur að ströng lög um persónuvernd eru nauðsynleg.

Í árin 28 sem ég hef haldið úti bjorn.is læt ég það standa sem upphaflega fer inn á síðuna en leiðrétti ritvillur og augljósar staðreyndavillur sé mér á þær bent.

Nú nota ég tækifærið til að leiðrétta það sem ég sagði 24. janúar um að Ólafur Ísleifsson hefði ekki náð endurkjöri á alþingi árið 2021.

Ólafur upplýsir í fyrsta bloggi sínu að hann hafi alls ekki boðið sig fram til þings og segir: „Framboð Miðflokksins 2021 var mér með öllu óviðkomandi en hefði haft skírskotun til þriðja orkupakkans hefði ég einhverju um ráðið.“ Skilja má þessi orð hans á þann veg að innan Miðflokksins hafi menn ekki viljað flagga þriðja orkupakkanum og andstöðu við hann fyrir kosningarnar.