30.1.2023 9:29

Upplýsingafalsanir lýðskrumara

Auðvelt er fyrir lýðskrumara á borð við Sólveigu Önnu Jónsdóttur að leiða fylgjendur sína gagnrýnislaust í ógöngur. Að veita lýðskrumurum slíkt dagskrárvald í umræðum er til skammar.

Að saka Aðalstein Leifsson ríkissáttasemjara um lögbrot eða að klaga hann til ráðherra fyrir að leggja fram miðlunartillögu í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins (SA) afvegaleiðir umræður með upplýsingafölsunum.

Óveðrið sem spáð er í dag (30. janúar) varð til þess að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, blés af fund með Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, sem hún heimtaði nú í morgunsárið. Hún ætlaði að heimta að ráðherrann gripi fram fyrir hendur á ríkissáttasemjara. Þetta er álíka heimskuleg aðför að ríkissáttasemjara eins og ef einhverjum dytti í hug að heimta að dómsmálaráðherra breytti niðurstöðu dómara.

Ráðherrann lýsti að sjálfsögðu yfir að hann ætlaði ekki að beita sér fyrir því að ríkissáttasemjari drægi miðlunartillögu sína til baka.

1392730Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari kynnir miðlunartillögu sína 26. janúar 2023. (mbl.is/Eggert Jóhannesson).

Í samtali við Morgunblaðið í dag lýsir Ásmundur Stefánsson, hagfræðingur, fyrrverandi forseti ASÍ og fyrrverandi ríkissáttasemjari, undrun yfir efasemdum miðstjórnar ASÍ um lögmæti þess að ríkissáttasemjari leggi fram miðlunartillögu. Lagaheimild til þess sé óumdeild og framkvæmd hennar ráðist einungis af mati sáttasemjara á stöðu viðræðna.

Ásmundur minnir á að rík fordæmi séu fyrir beitingu lagagreinarinnar. Þrjátíu miðlunartillögur hafi verið lagðar fram á síðustu fjörutíu árum og þar af hafi um þriðjungur verið felldur.

Ásmundur víkur að ályktun miðstjórnar ASÍ þar sem segir að miðlunartillaga „eigi ekki að leggjast fram án þess að hafa a.m.k. þegjandi samþykki beggja aðila“. Ásmundur segir þessa viðmiðun hvergi í lögum og það sé „fordæmanlegt að stóru heildarsamtökin skuli fara fram með bein ósannindi í þessu efni“.

Til sáttasemjara sé gerð sú eina krafa „að hann meti ástandið þannig að það sé rétt að leggja fram miðlunartillögu. Þó að menn gefi yfirlýsingar á yfirlýsingar ofan um að það sé brot, þá haggar það ekki þeirri staðreynd að fyrir þessu er ekki bara lagaheimild, heldur einnig sterk hefð. Ósannindi hrekja ekki staðreyndir,“ segir Ásmundur Stefánsson.

Framvinda þessa máls í fjölmiðlum og á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar frá því að ríkissáttasemjari kynnti miðlunartillögu sína fimmtudaginn 26. janúar er til marks um hve auðvelt er fyrir lýðskrumara á borð við Sólveigu Önnu Jónsdóttur að leiða fylgjendur sína gagnrýnislaust í ógöngur. Að veita lýðskrumurum slíkt dagskrárvald í umræðum er til skammar.

Sólveig Anna valdi innan við 300 manna hóp í Eflingu til að greiða atkvæði um verkfall hjá Íslandshótelum. Ásmundur Stefánsson bendir á að samkvæmt reglum gætu innan við þrjátíu manns í þeim hópi samþykkt verkfall sem hefði áhrif á stöðu mikils fjölda á vinnumarkaði.

Á sama tíma og þannig er að verki staðið við verkfallsboðun neitar Sólveig Anna að afhenda ríkissáttasemjara kjörskrá Eflingar til að hindra allsherjaratkvæðagreiðslu meðal allra félagsmanna Eflingar um miðlunartillöguna. Í dag verður þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur krafa ríkissáttasemjara um að sér verði afhent kjörskráin. Aldrei áður hefur reynt á neitt sambærilegt.

Á slíkum úrslitatímum er brýnna en ella að að vara við lygafréttum og upplýsingafölsunum.