29.11.2022 11:18

Þingmenn í ógöngum

Hér er enn eitt dæmið um að þingmenn sem hafa hæst um að farið skuli að reglum gefa lítið fyrir reglur sem gilda um þá sjálfa. Fleiri dæmi má nefna.

Í starfsreglum alþingis segir að að aðeins nefndarmenn og áheyrnarfulltrúar hafi aðgang að trúnaðargögnum sem kynnt eru þingnefndum, ekki aðrir. Varamaður í þingnefnd fái þennan aðgang þegar hann sest í nefndina. Aðrir þingmenn hafi ekki aðgang að trúnaðarupplýsingum nefndar.

Nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis (SEN) fengu síðdegis sunnudaginn 13. nóvember senda skýrslu ríkisendurskoðunar og skyldi ríkja trúnaður um efni hennar í um sólarhring, þar til ríkisendurskoðandi ætti fund með nefndinni.

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Samfylkingu), formaður SEN, hlýtur að beita sér fyrir að upplýst sé um trúnaðarbrest innan nefndarinnar eftir að skýrslunni var lekið til fréttastofu ríkisútvarpsins sama dag og hún barst.

1322131Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi (mynd: mbl.is)

Píratinn Björn Leví Gunnarsson gefur til kynna að trúnaðargögnum til þingnefndarmanna sé dreift á allan pírata-þingflokkinn. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir situr fyrir pírata í SEN. Björn Leví segist hafa séð skýrslu ríkisendurskoðunar áður en hún birtist opinberlega. Það hafi hann gert á „fullkomlega löglegan hátt“ með uppáskrift nefndasviðs þingsins. „Það kallast að trúnaður yfirfærist vegna svona gagna,“ segir Björn Leví í grein Andrésar Magnússonar, fulltrúa ritstjóra, í Morgunblaðinu í dag (29. nóv.).

Skil eru þannig á milli orða í starfsreglum þingnefnda og framkvæmdar.

Hér er enn eitt dæmið um að þingmenn sem hafa hæst um að farið skuli að reglum gefa lítið fyrir reglur sem gilda um þá sjálfa. Fleiri dæmi má nefna:

Píratar heimta að þeir sem sækja um ríkisborgararétt til alþingis þurfi ekki að fara að reglum.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, kvartaði undan því að þingmenn fengju ekki lögfræðiáliti sem unnið væri fyrir þá vegna deilu hennar við fjármálaráðherra um IL-sjóðinn svonefnda. Ekkert þingmál hefur verið lagt fram um meðferð sjóðsins.

Birgir Ármannsson þingforseti leiðbeindi þingmönnum með þeim orðum að sér væri „ekki kunnugt um að þingnefndir hafi fengið aðkeypt lögfræðiálit vegna mála sem ekki eru komin til þingsins“.

Í annan stað kvartaði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir undan því að forsætisráðherra kæmi ekki fyrir fjárlaganefnd til að ræða fyrirsjáanlegt „gat“ í fjárlögum næsta árs.

Þingforseti minnti þingmenn á að þingnefndir kölluðu ráðherra til svara á stjórnskipulegu ábyrgðarsviði þeirra. Fjármála- og efnahagsráðherra ber ábyrgð á fjárlögum og framkvæmd þeirra.

Síðar kom í ljós að forsætisráðherra hefði ekki fengið neina ósk um að koma á fund fjárlaganefndar vegna þess sem Þorbjörg Sigríður gerði að umræðuefni.

Á nokkrum dögum lauk héraðssaksóknari rannsókn og upplýsti hvernig mynd úr síma lögreglumanns af innrás á veitingastað í Bankastræti lak til fjölmiðla. Var tekið skipulega á málinu af hálfu stjórnenda lögreglunnar.

Löggjafarnir við Austurvöll segjast ekki bundnir af eigin starfsreglum og fimbulfamba án þess að hafa nokkuð til síns máls.