22.1.2022 10:45

Góð landkynning flughetju

Þegar hún var spurð við heimkomuna hvað henni væri minnisstæðast nefndi hún enn á ný hve Ísland væri stórbrotið og ógleymanlegt væri að fljúga yfir New York-borg.

Zara Rutherford, 19 ára, lenti eins hreyfils Shark UK-flugvél sinni á Kortrijk-flugvelli í Belgíu fimmtudaginn 20 janúar 2022 eftir að hafa flogið umhverfis jörðina á 155 dögum, tveimur mánuðum lengri tíma en hún ætlaði. Veður tafði hana á ferð hennar auk þess sem vandræði urðu vegna vegabréfsáritana.

Hún hóf flugferðina 18. ágúst 2021 og flaug alls 51.000 km, hafði viðdvöl í 41 landi í fimm heimsálfum. Vegna afreksins kemst Zara í Heimsmetabók Guinness og ýtir til hliðar bandarísku konunni Shaestu Waiz sem átti fyrra metið sem yngsta konan til að fljúga í kringum jörðina en það gerði hún 30 ára 2017.

Í fyrra flaug 18 ára Breti, Travis Ludlow, einn umhverfis jörðina. Hann er yngstur allra til að fara hringinn á eins hreyfils vél, 2001 Cessna 172R. Ferð hans tók 44 daga og var 40.072 km.

Ludlow hóf ferð sína í austur yfir Evrópu, Rússland og síðan yfir Bandaríkin, Kanada, Grænland, Ísland, Skotland og til Hollands þar sem hann lauk fluginu.

E63E50604A24A8E4F1ACF7DBFF417418D18709A461FD5175FF508F2555C2C607_713x0Zara Rutherford á Reykjavíkurflugvelli 19. ágúst 2021 (mynd visir.is).

Zara Rutherford fór hinn hringinn, það er í vestur og lenti á Íslandi á fyrsta degi ferðar sinnar, 19. ágúst 2021. Þá hélt hún að flugi sínu lyki hún á tæpum þremur mánuðum 4. nóvember 2021 en þeir urðu fimm.

Á visir.is birtist 19. ágúst mynd af Zöru á Reykjavíkurflugvelli og stutt viðtal þar sem hún segir flugið yfir Ísland hafa „verið stórkostlegt“ og bætir við:

„Ég flaug yfir eldfjallið og það var magnað. Ég hafði stórfenglegt útsýni. Ég held að þetta sé eitt fallegasta land í heimi.“

Þegar hún var spurð við heimkomuna hvað henni væri minnisstæðast nefndi hún enn á ný hve Ísland og eldfjallið hefði verið stórbrotið auk þess sem ógleymanlegt væri að hafa flogið yfir New York-borg.

Zara flaug sjónflug og varð því að laga sign mjög að veðri og vindum. Hún hefði verið hætt komin vegna eldinga við Singapúr, ókyrrðar í loft yfir Búlgaríu og skógarelda í Kaliforníu.

Afreks Zöru Rutherford er getið í öllum helstu fjölmiðlum heims og sjónvarpsstöðvar austan hafs og vestan birta frásagnir af afreki hennar. Góð landkynning!