28.9.2021 9:43

Hringekja jöfnunarsæta

Að endurtalning atkvæða leiði til nýrrar niðurstöðu hefði ekki vakið neina athygli út fyrir landsteinana nema vegna þess að meirihluti kvenna á alþingi valt á henni.

Atvik við talningu atkvæða í NV-kjördæmi í Borgarnesi sem skýrt hefur verið sem mannleg mistök dró þann dilk á eftir sér að heimsfréttin um að konur væru í meirihluta á alþingi reyndist röng. Við endurtalningu atkvæða í kjördæminu fór hringekja af stað og konur féllu úr jöfnunarsætum. Alþingi verður áfram að meirihluta skipað körlum sem ekki þykir fréttnæmt. Á hinn bóginn birtu allar helstu fréttastöðvar heims nýja frétt um að endurtalning hefði leitt í ljós að á Íslandi væru konur næstum því í meirihluta á þingi.

Að endurtalning atkvæða leiði til nýrrar niðurstöðu hefði ekki vakið neina athygli út fyrir landsteinana nema vegna þess að meirihluti kvenna á alþingi valt á henni. Endurtalning atkvæða er hluti kosninga um allan heim.

Eftir að Donald Trump tapaði fyrir Joe Biden í nóvember 2020 er enn verið að endurtelja atkvæði einhvers staðar í Bandaríkjunum að kröfu hans og Trumpista.

Föstudaginn 24. september var skýrt frá því að lokið væri handtalningu 2,1 milljón atkvæða í Maricopasýslu í Arizonaríki. Tók þessi eina talning og rannsókn á atkvæðaseðlum fimm mánuði. – Fimm klukkustundir tók að endurtelja í Suðurkjördæmi hér mánudaginn 27. september. Í Maricopasýslu styrktist staða Bidens frekar við endurtalninguna og engin breyting varð í Suðurkjördæmi hér.

Finna má til með þeim sem tapa í kosningum með litlum mun. Þá hefur dreifing jöfnunarsæta hér í lítt gagnsæju kosningakerfi oft leitt til mikillar sálarangistar þeirra sem eru milli heims og helju i höndum talningarmanna. Endurtalningin í NV-kjördæmi reyndi greinilega mjög á taugar þeirra sem áttu hlut að máli.

1299987Atkvæði endurtalin í Suðurkjördæmi (mynd: mbl.is/Guðundur Karl Sigurdórsson).

Einn þeirra er Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði og nú oddviti framboðslista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi. Hann var talinn alþingismaður fyrir endurtalningu „Þetta er náttúrulega ótrúlegt að upplifa þetta sem nýliði í þessu,“ sagði hann eftir að tölur og kosningakerfið ýtti honum til hliðar og bætti við: „Ég hef lagt allt mitt í þetta, allt mitt hjarta, sál og sparifé“. Það var ekki aðeins Guðmundur sem hafði fagnað heldur einnig forystusveit Viðreisnar sem taldi að með kjöri hans hefði flokknum tekist að sýna að hann væri ekki flokkur höfuðborgarsvæðisins.

Guðmundur Gunnarsson hallmælti kerfinu. Karl Gauti Hjaltason, fyrrv. sýslumaður og lögreglustjóri, frambjóðandi Miðflokksins í SV-kjördæmi var talinn líklegur jöfnunarþingmaður fram að endurtalningu í NV-kjördæmi. Hann segist vilja fá á hreint hvernig að endurtalningunni var staðið og að lögreglan rannsaki málið sem sakamál. Hver sem niðurstaða þess máls verður breytist ekki niðurstaða kosninganna.

Fljótræðisleg viðbrögð þeirra sem eiga um sárt að binda vegna mannlegra mistaka við atkvæðatalningu duga ekki til að kollvarpa úrslitum kosninganna. Enginn vafi leikur um hver á síðasta orðið í þessu efni, það eru alþingismenn sjálfir. Þeir hafa það hlutverk samkvæmt stjórnarskránni að kanna hvort einstaka þingmenn séu löglega kosnir.