31.7.2021 11:41

Fagnað í heimi Wagners

Að komast í þá stöðu sem baritón-söngvarinn Ólafur Kjartan hefur náð í Bayreuth er á við það að vera í gullflokki á Ólympíuleikum.

Selma Guðmundsdóttir, formaður Wagner-félagsins Íslandi, var í Bayreuth í Bæjaralandi þriðjudaginn 27. júlí þegar hún birti þennan texta á FB-síðu sinni:

„Frá því Tómas Tómasson söng Telramund í Bayreuth fyrir ca 10 árun hefur enginn Íslendingur fyrr né síðar, sungið einsöngshlutverk á Wagnerhátíðinni í Bayreuth fyrr en að Ólafur Kjartan Sigurðarson söng Biterolf í Tannhäuser í kvöld. Flott frammistaða, bæði leiklega og raddlega og kominn með samning í Bayreuth til nokkurra ára, m.a. Alberich í næsta Niflungahring. Frábær uppsetning Tobiasar Kratzer.með Lise Davidsen, Stephen Gould, Markus Eiche o. fl.“

Að sækja Wagner-hátíðina. Festspiele, í Bayreuth er fyrir óperuáhugamenn álíka og fyrir þá sem hafa áhuga á íþróttum að sækja Ólympíuleikana. Þetta er fullyrt eftir að hafa tvisvar sinnum fengið tækifæri til að gera hvoru tveggja. Nú fara leikarnir fram í Tókýó án áhorfenda eftir að hafa verið í frestað í fyrra eins og Wagner-hátíðinni. Hún er haldin í ár með 900 manns í salnum í stað rúmlega 1.900 og enginn fær þar aðgang, hvorki listamenn né gestir, án þess að uppfylla ströngustu sóttvarnakröfur.

Að komast í þá stöðu sem baritón-söngvarinn Ólafur Kjartan hefur náð í Bayreuth er á við það að vera í gullflokki á Ólympíuleikum. Frumraunin í Tannhäuser er aðeins fyrsta skref Ólafs Kjartans inn í óperuhúsið sem Richard Wagner reisti til flutnings verka sinna á hæðinni í útjaðri Bayreuth árið 1872. 

223618413_4462807167064973_5633687164978182674_nSelma Guðmundsdóttir, formaður Wagner-félagsins, birti þessa mynd frá Bayreuth af sér og Ólafi Kjartani Sigurðarsyni, baritón-söngvara, á FB-síðu sinni.

Á 16 ára ferli sínum sem kanslari Þýskalands hefur Angela Merkel haft það fyrir árlega reglu að sækja Wagner-hátíðina sem haldin er í júlí og ágúst. Sama má segja um óperuunnendur um heim allan.

Á næsta ári verður frumflutt ný uppfærsla á Niflungahring Wagners í Bayreuth. Í óperuheiminum er þetta stórviðburður sem haft getur stefnumarkandi áhrif langt út fyrir litla sveitaþorpið sem Bayreuth er í raun, skammt frá landamærum Tékklands og Þýskalands.

Alberich, hlutverkið sem Ólafur Kjartan, fær í þessari nýju uppfærslu er eitt af lykilhlutverkunum enda kemur Alberich fram í þremur af fjórum óperum verksins sem tekur í heild tæpar 16 klukkustundir í flutningi. Hver uppfærsla af Hringnum er að jafnaði sýnd á þremur Bayreuth-hátíðum í röð, þessi því 2022, 2023 og 2024, en Ólafur Kjartan hefur að minnsta kosti verið ráðinn 2022 og 2023 segir hann í Morgunblaðinu í dag og að hann haldi áfram að syngja hlutverk Biterolfs í Tannhäuser til 2023. Í viðtalinu segir Ólafur Kjartan einnig:

„Eftir að það var gert opinbert að ég muni syngja mikilvægt hlutverk í nýrri uppsetningu af Niflungahringnum á næsta ári þá er það þegar farið að hafa mjög öflug og bein áhrif á mína dagbók í framtíðinni. Það eru þegar komnar bókanir sem eru bein afleiðing af því að hafa fengið þennan samning.“

Hann syngur titilhlutverkið í Hollendingnum fljúgandi eftir Wagner í nóvember 2021 í óperuhúsinu í Leipzig í Þýskalandi. Til þessa hlutverks var hann ráðinn án prufusöngs. Bayreuth-gæðastimpillinn opnaði þannig svið annars heimsfrægs Wagnershúss.

Ólafi Kjartani fylgja innilegar heillaóskir!