17.6.2021 11:53

Lifi landbúnaðurinn!

Landbúnaður er og verður grunnþáttur mannlífs á Íslandi og það er skylda okkar allra að búa honum umgjörð til að dafna og blómgast við nýjar aðstæður.

Fyrri hluta júní 2021 hef ég ferðast um allt land og sótt 10 fundi sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, boðaði til svo að við Hlédís H. Sveinsdóttir, ráðgjafi og verkefnisstjóri, gætum kynnt umræðuskjalið Ræktum Ísland! sem við sömdum í umboði ráðherrans með þeim Sigurgeir Þorgeirssyni, fyrrv. ráðuneytisstjóra, og Bryndísi Eiríksdóttur, sérfræðingi í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Skjalið er lokaáfangi í vinnu sem ráðherrann setti af stað fyrir þremur árum við að móta okkur Íslendingum landbúnaðarstefnu.

IMG_3600Lómagnúpur og Öræfajökull.

Þegar ég var kallaður til þessa verks sumarið 2020 um svipað leyti og ég lauk við gerð tillagna um norræna stefnu í utanríkis- og öryggismálum hafði ég óljósar hugmyndir um stöðu íslensks landbúnaðar. Þær mótuðust af umræðum annarra frekar en eigin afskiptum og minningunni um hve miklu skipti við samþykkt EES-samningsins á alþingi fyrir tæpum 30 árum að við Egill Jónsson á Seljavöllum, flokksbróðir minn og formaður landbúnaðarnefndar alþingis, náðum samkomulagi um orðalag í áliti meirihluta utanríkismálanefndar þingsins, sem ég stýrði.

Síðan er vissulega mikið vatn runnið til sjávar og á 21. öldinni verður að stíga markverð skref til að íslenskur landbúnaður fái dafnað við nýjar aðstæður. Þeim er lýst í skjalinu Ræktum Ísland! auk þess sem leitast er við að vísa veg til framtíðar. Það hefur glatt okkur sem að þessi verki höfum staðið hve vel sóttir fundirnir 10 voru og hve skjalið fékk jákvæðar undirtektir.

Síðasti fundurinn var fjarfundur í gær og ég þarf enn nokkurn tíma til að draga í huga mér upp mynd af því sem eftir situr um einstaka áhersluþætti. Heildarmyndin er þó skýr. Undir það er tekið með okkur að landnýting, loftslagsmál (umhverfisvernd), fjórða iðnbyltingin og alþjóðlegir straumar verða mótandi kraftar á komandi árum. Landbúnaðarstefna 21. aldarinnar verður að taka mið af þessu.

Þarna er um óþrjótandi tækifæri að ræða hjá þjóð sem á mikið land, vatn og orku. Nú við þinglok er gert nokkurt veður út af því að ekki tókst að afgreiða frumvarp um hálendisþjóðgarð. Allir eru sammála um nauðsyn þess að vernda og leggja rækt við hálendið. Um aðferðina er deilt auk þess sem málsmeðferðin sætir gagnrýni. Ferlið vegna hálendisþjóðgarðs hefur gildi í sjálfu sér og ber ekki að vanmeta það.

Við leggjum áherslu á að landbúnaðarstefna verður ekki reist á fyrirmælum heldur samkomulagi. Hún verður ekki til með kollsteypum heldur verður að stíga skref fyrir skref. Það hefur einmitt verið gert undir forystu Kristjáns Þórs Júlíussonar.

Í mínum huga er enginn vafi um nauðsyn þess að mótuð sé landbúnaðarstefna sem verði ráðandi þáttur ekki aðeins fyrir þá sem landið yrkja heldur einnig hina sem smíða lög og reglur um þróun efnahags- og atvinnulífs. Landbúnaður er og verður grunnþáttur mannlífs á Íslandi og það er skylda okkar allra að búa honum umgjörð til að dafna og blómgast við nýjar aðstæður.

Gleðilega þjóðhátíð!