14.5.2021 11:42

Rætt um EES í framkvæmd

Það var í samræmi við stjórnarskrána að alþingi afgreiddi þriðja orkupakkann með þingsályktun. Að halda því fram að það hafi verið gert til að hindra aðkomu forseta Íslands að málinu er ótrúleg blekking.

Í Morgunblaðinu í dag (14. maí) birtast þrjár greinar sem tengjast framkvæmd EES-samningsins.

Samtök orkusveitarfélaga sem vilja meðal annars að sveitarfélögin fái fasteignagjöld af orkumannvirkjum ætla að leita til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) til að fá álit á því hvort um ólögmæta ríkisaðstoð sé að ræða við orkufyrirtæki þar sem verulegur hluti fasteignafjárfestinga fyrirtækja í raforkuframleiðslu fer ekki í fasteignamat og sætir þar með ekki álagningu fasteignaskatts.

Í grein vek ég máls á því að framkvæmd EES-reglna sem snerta framleiðslu og sölu landbúnaðarafurða sé þrengri hér en annars staðar á EES-markaðnum hvort sem litið er til stórframleiðenda eða smáframleiðenda.

EU_flagÞá skrifar Werner Ívan Rasmusson eftirlaunamaður gagnrýna grein um EES-aðildina og segir kjósendur lítið vara við umræður um EES-tilskiparnar, þær virðist „kokgleyptar í einu lagi án athugasemda“. Hann spyr: „Er kannski eitthvað sem okkur hefur ekki verið sagt?“

Svarið við spurningunni er að afla má upplýsinga um allt sem varðar EES-aðildina. Menn þurfa aðeins að bera sig eftir björginni. Til dæmis kom haustið 2019 út um 300 bls. skýrsla þar sem öllum þáttum EES-aðildarinnar eru gerð góð skil og lagðar fram 15 tillögur  til úrbóta. Hún er innan seilingar fyrir alla sem hafa aðgang að netinu.

Gífurlega miklar umræður urðu á árinu 2019 um þriðja orkupakka EES. Miðflokkurinn tók alþingi í gíslingu dögum saman með málþófi vegna orkupakkans.

Nú segir Werner hins vegar að eitt „gleggsta dæmið“ um að þjóðin sé leynd einhverju séu „raforkupakkarnir sem þingið ákvað að afgreiða sem þingsályktanir, þannig að ekki þurfti aðkomu forsetans“.

Það var í samræmi við stjórnarskrána að alþingi afgreiddi þriðja orkupakkann með þingsályktun. Að halda því fram að það hafi verið gert til að hindra aðkomu forseta Íslands að málinu er ótrúleg blekking. Að baki henni býr, að hefði málið farið til forsetans hefði mátt beita hann þrýstingi til að staðfesta ekki gjörninginn!

Þá segir Werner Schengen-samstarfið eitthvað sem við „fengum í fangið“. Vissulega höfðu íslensk stjórnvöld ekki frumkvæði að Schengen-samkomulaginu. Tekin var upplýst ákvörðun um aðildina í lok tíunda áratugarins með vísan til þeirra meginraka að annars hyrfum við úr norrænu samstarfi um vegabréfaleysi. Þegar fyrir lá sérstakt álit um að aðildin samræmdist stjórnarskránni samþykkti alþingi hana.

Hitt er síðan okkar mál hvernig við högum eigin landamæravörslu. Þar höfum við mikið svigrúm sem reynst hefur erfitt að nýta vegna pólitískra krafna innan lands um stefnu í útlendingamálum. Það er rangt hjá Werner að við höfum afsalað „okkur yfirráðum yfir öruggu landamærunum okkar, vernduðum af sjálfu Atlantshafinu“. Staðreynd er að vegna ákvarðana alþingis hefur verndin ekki verið sem skyldi. Það má haga henni á mun strangari hátt.