13.5.2021 11:06

Leyndarhyggja útlendinganefndar

Tilgangurinn með sérstakri kærunefnd útlendingamála var örugglega ekki að innleiða leyndarhyggju í málaflokkinn.

Í pistli á malid.is fjallar Jón G. Friðjónsson, fyrrv. prófessor, um muninn á merkingu orðasambandsins að jafnaði og atviksorðsins jafnan. Hann segir merkingarmuninn ekki ávallt augljósan. Um að jafnaði segir hann:

„Í flestum þeirra dæma sem ég hef skoðað úr síðari alda máli virðist erfitt að skera úr um það hvort við eigi fyrri merkingin (‘ávallt, alltaf') eða hin síðari (‘að jafnaði, oftast'). Dæmi um síðari merkinguna virðast mun færri en þó er öruggt að hvor tveggja merkingin er forn.“

Að þessu er vikið hér vegna greinar eftir Einar S. Hálfdánarson, hæstaréttarlögmann og löggiltan endurskoðanda, í Morgunblaðinu í dag (13. maí) þar sem hann lýsir samskiptum sínum við formann kærunefndar útlendingamála. Hann segir að af einhverjum sökum sé kærunefndinni í mun að sveipa starfsemi sína leyndarhjúpi. Formaður nefndarinnar telji að með vísan til orðanna „að jafnaði“ í reglum nefndarinnar þurfi hún ekki að birta alla úrskurði sína en Einar segir að þar sé um „stóran hlut“ þeirra að ræða.

1220046Myndin er af mbl.is og sýnir lögreglu fjarlægja stuðningsmenn hælisleitenda úr anddyri dómsmálaráðuneytisins. Þar er mótmælt niðurstöðum kæurnefndar útlendingamála þótt hún sé sjálfstæð og eigi náið samstarf við réttagæslumenn hjá Rauða krossinum og utan hans.

Útlendingamál eru viðkvæmur málaflokkur á stjórnmálavettvangi og í huga almennings. Tilgangurinn með sérstakri kærunefnd útlendingamála var örugglega ekki að innleiða leyndarhyggju í málaflokkinn.

Kærunefndin hefur svo án lagaheimildar eða heimildar ráðherra sett sér verklagsreglur þar sem starfsmönnum Rauða krossins er veittur sérstakur aðgangur að úrskurðum nefndarinnar.

Formaður kærunefndarinnar segir að starfsmenn Rauða krossins hafi „aðgang að um 99% af efnisúrskurðum á þessu sviði, en örfáir kærendur haf[i] falið öðrum lögmönnum að sjá um hagsmunagæslu gagnvart kærunefndinni“. Formaðurinn segir að „markmið opinberrar birtingar um fyrirsjáanleika og réttaröryggi“ séu „því mjög vel tryggð að þessu leyti með þeim aðgangi sem starfsmenn Rauða krossins haf[i] að úrskurðum kærunefndar“.

Einar S. Hálfdánarson furðar sig eðlilega á þessum starfsháttum og segir:

„Kærunefnd útlendingamála lítur sem sé svo á að reglur sem gilda um birtingu dóma, lög um persónuvernd og reglur um birtingu ýmissa úrskurða stjórnvalda og m.a.s. skýr fyrirmæli útlendingalaga séu ekki bindandi og að úrskurðir Útlendingastofnunar þurfi ekki sæta opinberri birtingu, almenning varði þetta engu.“

Á sínum tíma varaði þáverandi umboðsmaður alþingis við þeirri þróun að sjálfstæðum kærunefndum yrði falið úrskurðarvald. Í skjóli þeirra yrði þrengt að leiðum almennings til að kalla stjórnmálamenn til ábyrgðar. Þrátt fyrir kærunefnd útlendingamála situr valdalaus dómsmálaráðherra undir hörðum árásum ef starfsmenn Rauða krossins eða aðrir sem njóta forgangs við miðlun upplýsinga frá kærunefndinni sjá ástæðu til opinberra aðgerða.

Rétt er að taka fram að í dag birtist heilsíða í Morgunblaðinu þar sem embætti formanns kærunefndar útlendingamála er auglýst laust til umsóknar. Nýjum formanni ætti að setja skýrar starfsreglur um málshraða og birtingu úrskurða á opinberum vettvangi án mismununar.