7.5.2021 9:46

Gagnslaus grímuskylda

Í hugum æ fleiri er gríman ekki aðeins tímaskekkja heldur grefur hún undan trausti og virðingu í garð sóttvarnayfirvalda eins og oft gerist með opinberar tilskipanir án réttmætrar innstæðu.

Sóttvarnayfirvöld njóta mikils trausts hér á landi og framgöngu þeirra er fagnað hvar sem færi gefst eins og til dæmis þegar Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir voru bólusett við dynjandi lófatak í Laugardalshöll. Bólusetningar hafa tekið mikinn kipp undanfarið og nú er boðað að árangurs af þeim muni gæta í afléttingarákvörðunum sem vonandi verður unnt að taka og framkvæma í næstu viku.

Þar ætti afnám grímuskyldu að verða efst á blaði. Þórólfur Guðnason sagði 7. júní 2020 að grímunotkun gæti hugsanlega stuðlað að aukningu smita: „Við höfum séð að andlitsgrímurnar geta leitt til þess að fólk sé ekki að passa sig á öðrum," sagði hann.

Honum snerist hugur í september 2020 og sagðist ekki hika við að læra af reynslunni: „Grímurnar hafa sýnt sig og sannað að bera árangur í akkúrat vissum aðstæðum. Það er í takt við þau tilmæli sem við komum með,“ sagði Þórólfur 21. september 2020 og sett var grímuskylda í starfsemi sem krefst mikillar nálægðar og síðan var hert á henni 31. október 2020.

Við búum enn við þessar hertu reglur, sitja þarf með grímur í tónleikasal eða leikhúsi þótt selt sé í sæti þannig að hæfilegt bil á að vera á milli ótengdra gesta. Gerist einhver svo djarfur að lyfta grímunni upp fyrir munninn eða færa hana niður fyrir nef til að njóta meiri frelsis undir flutningi verks er líklegt að vaktmaður hússins hnippi í hann á milli verka og krefjist þess að gríman hylji bæði munn og nef.

Istockphoto-1214566657-612x612Á blaðamannafundi 18. febrúar 2021 var Þórólfur spurður hvenær tímabært væri að fella grímurnar og hann svaraði: „Ég held að það verði með seinni skipunum sem ég muni koma með þau tilmæli að fólk felli grímuna. Það er ýmislegt sem hægt verður að gera áður.“

Þórólfur var enn spurður á blaðamannafundi 28. apríl 2021 og vitnaði blaðamaður meðal annars til þess að bandarísk yfirvöld hefðu þá tilkynnt að fullbólusettir fái að sleppa því að ganga um með grímu. Þórólfur svaraði: „Ég hugsa ekki svona langt. Það er ekki komið að því, en það kemur að því einhvern tímann.“

Nú er kominn 7. maí. Í hugum æ fleiri er gríman ekki aðeins tímaskekkja heldur grefur hún undan trausti og virðingu í garð sóttvarnayfirvalda eins og oft gerist með opinberar tilskipanir án réttmætrar innstæðu. Hörður Ægisson segir til dæmis í leiðara Fréttablaðsins í dag:

„Eflaust trúa því fáir í dag að notkun andlitsgríma, óháð því hvort hægt sé að tryggja tveggja metra fjarlægð milli fólks, breyti nokkru um útbreiðslu faraldursins hér á landi. Í stað þess að vera þýðingarmikil sóttvarnaráðstöfun er hún frekar orðin að einhvers konar táknmynd þess að fólk skuli á þessum leiðinlegu tímum hlýða gagnrýnislaust eins og hundar – og grímunotkun sé því áminning um hvernig við eigum að haga okkur við hin ýmsu tækifæri. Það er staða sem má ekki festast í sessi.“

Í sjálfu sér er dapurlegt að knýja þurfi á með þessum hætti gegn gagnslausri grímuskyldu en því miður er það óhjákvæmilegt.