6.5.2021 10:29

Katrín á vefstefnu Varðbergs

Sögulegt að núverandi formaður VG, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, taki þátt í vefstefnu Varðbergs vegna 70 ára afmælis varnarsamningsins.

Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál, þar sem ég gegndi formennsku í 10 ár þar til í ársbyrjun 2021, þegar Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður tók við af mér, efndi í gær (5. maí) til vefstefnu vegna þess að 70 ár voru liðin frá undirritun varnarsamningsins við Bandaríkin. Hér má sjá vefstefnuna undir stjórn Davíðs Stefánssonar. Þar sannaðist enn hve víðtæk samstaða er meðal allra þingflokka um nauðsyn góðs samstarfs og góðra tengsla við Bandaríkin. Í tvíhliða samskiptum þjóðanna er varnarsamningurinn grunnstoð.

Samtök um vestræna samvinnu voru stofnuð 19. apríl 1958 og Varðberg, félag ungra áhugamanna um um vestræna samvinnu, 18. júlí 1961. Það eru því 62 ár síðan þessi félög, sem runnu saman í eitt í lok árs 2010, komu til sögunnar. Í upphafi stóðu þrír flokkar að félögunum, lýðræðisflokkarnir svonefndu, Alþýðuflokkur, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur. Í fjarlægð var Alþýðubandalagið, vegna andstöðu við aðild að NATO og varnarsamninginn.

Safe_image.php_1620296932420Hér á síðunni má sjá frásögn mína af fundi sem Samtök um vestræna samvinnu og Varðberg efndu til 18. janúar árið 2000. Þar segir meðal annars:

„Vakti athygli margra, að Steingrímur J. Sigfússon [stofnandi og fyrsti formaður Vinstri grænna (VG) skyldi samþykkja að tala á þessum fundi. Hann er ekki fyrsti vinstrisinninn sem gerir það. Magnús Torfi Ólafsson, fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans og menntamálaráðherra, flutti ræðu á fundi SVS á níunda áratugnum. Ræða hans var að því leyti merkari en ræða Steingríms J., að Magnús Torfi lýsti þeirri skoðun, að nauðsynlegt væri fyrir Íslendinga að gæta öryggishagsmuna sinna og þeir gerðu það með skynsamlegum hætti með aðild að NATO og varnarsamstarfi við Bandaríkin.“

Af þessum orðum má ráða hve sögulegt það er að núverandi formaður VG, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, taki þátt í vefstefnu Varðbergs vegna 70 ára afmælis varnarsamningsins.

Katrín minnti á að sem herlaus þjóð væri aðild okkar að varnarsamstarfinu á borgaralegum forsendum. Íslendingar legðu áherslu á friðsamlegar lausnir og góð samskipti við NATO-þjóðirnar. Samskipti Íslands og Bandaríkjanna undanfarna áratugi væru reist á þeim gildum og leit að sameiginlegum lausnum.

Katrín vék að afstöðu flokks síns, um leið og hún sagði að varnarsamningurinn og aðildin að NATO væru grundvallarþættir í samþykktri þjóðaröryggisstefnu Íslands, og sagði:

„Þó að minn flokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, sé andvígur aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu þá höfum við ákveðið að fylgja hinni samþykktu þjóðaröryggisstefnu og höfum gert það í þeirri ríkisstjórn sem ég hef leitt undanfarin ár.“

Á 70 ára afmæli varnarsamningsins ber að geta síminnkandi andstöðu við hann. Keflavíkurgöngurnar gegn varnarstöðinni á sjöunda áratugnum virka á nútímamenn sem álíka mikil sérviska og að sjónvarpið var ekki á fimmtudögum.