8.8.2020 11:07

Réttindabarátta í höfn

Þessu er haldið til haga hér af því að afskipti okkar stjórnmálamanna þessa tíma voru óhjákvæmileg og nauðsynleg til að tryggja þau réttindi sem minnt er á og fagnað ár hvert á Hinsegin dögum.

Guðrún Ögmundsdóttir (f. 19.10. 1950 – d. 31.12. 2019) var þingmaður Samfylkingarinnar 1. júní 2006 þegar frumvarp til laga um réttarstöðu samkynhneigðra var til lokaumræðu.

Áður en Guðrún flutti eftirminnilega ræðu sína við afgreiðslu málsins hafði Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar þingsins, fylgt áliti nefndarinnar úr hlaði og sagt:

„Með þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar sem hafa það markmið að jafna réttarstöðu sambúðarfólks og er m.a. lagt til að samkynhneigð pör geti skráð sambúð sína í þjóðskrá. Þá eru lagðar til breytingar á lögum um ættleiðingar svo pör í staðfestri samvist og sambúð geti ættleitt börn og breytingar á lögum um tæknifrjóvgun svo konur í staðfestri samvist eða sambúð geti gengist undir tæknifrjóvgun. [...] Það er almennt um þetta mál að segja að með því er lagaleg réttarstaða samkynhneigðra para tryggð að jöfnu við gagnkynhneigð pör og það eru hin stóru tíðindi sem felast í málinu. Eftir þá skoðun sem fram hefur farið á réttarstöðu samkynhneigðra para kom í ljós að á ýmsum sviðum þurfti að gera bragarbót, gera þurfti lagfæringar á lögum til þess að færa réttarstöðu þeirra til jafns við gagnkynhneigða. Það er mat nefndarinnar að því markmiði sé náð með þessu frumvarpi.“

Guðrún Ögmundsdóttir sagði:

„Ég veit að margir hefðu viljað meiri umræðu í fjölmiðlum um einmitt öll þau miklu réttindi sem í þessu máli felast því að þau eru gríðarlega mikil. Nú er loksins verið að jafna stöðu gagnkynhneigðra og samkynhneigðra og ef væri hægt að líkja þessari stóru stund við eitthvað í sögu okkar á þingi væru það e.t.v. réttindi kvenna. Það er kannski sú beina tenging sem maður augljóslega sér.

Öll slík mál eiga sér auðvitað frekar langan aðdraganda. Ég bað á sínum tíma um skýrslu um stöðu sambúðarfólks vegna þess að ég vissi að í gegnum hana sæjum við réttleysi samkynhneigðra. Sú skýrsla var gríðarlega vel unnin. Hún var unnin af lögfræðingi fyrir dómsmálaráðuneytið og er í dag lögskýringargagn í námi í lögfræði. Þar kom auðvitað í ljós að staða samkynhneigðra var afleit í raun, miklu verri en við héldum. Við héldum að ástandið væri miklu betra og fegurra.

Í framhaldi af því var skipuð nefnd sem hæstv. þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, studdi af heilum hug að yrði gert. Fór nefndin yfir öll þessi mál og niðurstaðan var í rauninni þær lagabreytingar sem við erum að samþykkja hér. Það er því alltaf miklu meiri vinna að baki en fólk heldur, og kannski ósýnileg, þegar verið er að fjalla um svona stór mál.“

Halldór Ásgrímsson flutti þetta sögulega frumvarp sem forsætisráðherra á þingi í nóvember 2005. Allsherjarnefnd undir forystu Bjarna Benediktssonar vann að því veturinn 2005 til 2006 og lögin tóku síðan gildi á alþjóðadegi samkynhneigðra 27. júní 2006.

1-DSC07033Þessi mynd er frá gleðigöngunni í Reykjavík 2018, engin ganga er í dag, 8. ágúst 2020, vegna COVID-19-faraldursins.

Þessu er haldið til haga hér af því að afskipti okkar stjórnmálamanna þessa tíma voru óhjákvæmileg og nauðsynleg til að tryggja þau réttindi sem minnt er á og fagnað ár hvert á Hinsegin dögum. Þegar frumvarpið var afgreitt og lögin tóku gildi höfðu ekki allir þræðir verið raktir til enda í samskiptum við trúfélög og þar á meðal þjóðkirkjuna varðandi staðfesta samvist.

Í Morgunblaðinu í dag (8. ágúst) segir Agnes M. Sigurðardóttir biskup frá því að þjóðkirkjan og Samtökin '78, samtök samkynhneigðra, hafi tekið höndum saman um verkefnið: Ein saga – eitt skref. Tilgangurinn sé að biðjast fyrirgefningar, gera upp og læra af sögu misréttisins gagnvart hinsegin fólki innan kirkjunnar.

Vegna COVID-19-faraldursins er engin gleðiganga í dag. Afnámi misréttis fagnar raunar hver og einn best með sjálfum sér og að sjálfsögðu helst þeir sem þekktu ófrelsið og létu ekki bugast undan því heldur börðust fyrir eigin rétti og annarra.