27.5.2020 9:57

Sælt er sameiginlegt skipbrot

Að stjórnin í Venezúela flytji inn íranska olíu er í raun öfugmæli sé litið til þess að þar eru mestu olíulindir í heimi og þar var áður mikil olíuvinnsla og iðnaður tengdur henni.

Einræðisherrann í Venezúela var sigri hrósandi mánudaginn 25. maí þegar olíuskipið Fortune kom til hafnar í landinu með olíu frá Íran. Er þetta sagt fyrsta skipið af fimm sem Íranir senda með olíu til Venezúela. Nicolás Maduro, forseti Venezúela, setti sunnudaginn 24. maí á Twitter: „Þakkir, Íranir.“ Hann bætti við að á tímum andstöðu Bandaríkjamanna sé „bræðralag frjálsra þjóða þeim eitt til bjargar“.

Fréttin um ferð skipsins varpar ljósi á undirheima alþjóðasamskipta og dapurleg örlög tveggja þjóða í löndum, auðugum frá náttúrunnar hendi, sem búa við harðræði, léleg kjör og örbirgð vegna öfgamanna í valdasætum – íslamskra trúarofstækismanna og „hreinna sósíalista“. Bæði ríkin sæta bandarísku viðskiptabanni.

Bandarísk stjórnvöld kalla stjórn Maduros „glæpahring“ sem noti ólöglega fengið gull til að kaupa eldsneyti af ráðamönnum í Teheran.

Að stjórnin í Venezúela flytji inn íranska olíu er í raun öfugmæli sé litið til þess að þar eru mestu olíulindir í heimi og þar var áður mikil olíuvinnsla og iðnaður tengdur henni. Spilling og fjárskortur auk efnahagsþvingana Bandaríkjamanna hafa gert olíuiðnaðinn að engu. Olíuhreinsistöðvar landsins eru óstarfhæfar.

AR-303269958Algeng sjón í Caracas, höfuðborg Venezúela. Bílnum ýtt að bensínstöð í von um að þar sé eitthvert eldsneyti að fá.

Fréttaskýrendur segja það svo lýsa vanmætti Bandaríkjastjórnar á tíma COVID-19-faraldursins og undir forystu Donalds Trumps að Íranir gerist svo djarfir að senda olíuskip til Venezúela, inn á bandarískt áhrifasvæði. Áhættuna taki Íranir vegna þess að þá skorti sárlega reiðufé, gullið heilli.

Talið er að skipin fimm flytji 1,5 milljón tunnur af olíu frá Íran til Venezúela. Í frétt The New York Times um þessi einstæðu viðskipti segir að þetta olíumagn leysi alls ekki langvinn vandræði íbúa Venezúela. Þar bíði fólk klukkustundum saman eftir afgreiðslu á bensínstöðvum eða gangi langar leiðir til vinnu sinnar. Læknar geti ekki komist til starfa í sjúkrahúsum eða stofum sínum. Sjúklingar og barnshafandi konur fái ekki flutninga á sjúkrahús.

Ástæðan fyrir að Íranir eru núna aflögufærir með þessa olíu er að þar hefur mannlíf að miklu leyti lagst í dvala vegna COVID-19. Við það mynduðust umframbirgðir sem nýttar eru til að afla fjár með viðskiptum við annað ríki undir bandarísku viðskiptabanni. Vegna veirunnar sköpuðust „kjöraðstæður“ til viðskipta milli ríkjanna.

Þegar forveri og átrúnaðargoð Maduros, upphafsmaður sósíalistastjórnarinnar, Hugo Chávez (d. 2103), komst til valda 1999 stofnaði hann til viðskiptasambands við Írani sem ráku bílasmiðjur og sementsverksmiðjur í Venezúela og reistu þar þúsundir íbúða. Vegna hnignunar undir stjórn Maduros hættu Íranir atvinnustarfsemi í landi hans og tengsl stjórna landanna tóku á sig táknrænan og stjórnmálalegan svip. Þessi tímabundnu olíuviðskipti sýna þó að enn lifir í gömlum glæðum.

.