22.2.2020 14:07

Eflingar-sósíalistar gegn velmegun

Þá er augljóst að sósíalistarnir líta á meirihluta borgarstjórnar sem æskilegan andstæðing sem gefist fyrr en síðar upp fyrir þrýstingnum sem skapast með því að stöðva leikskólastarf, lama grunnskóla, vega að félagslegri aðstoð við eldri borgara og hindra sorphirðu.

Átakanlegt er að fylgjast með áróðrinum sem sósíalistarnir í Eflingu, Sólveig Anna Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson, reka og hve langt þau ætla að leiða umbjóðendur sína til að vega að lífskjarasamningnum og árangrinum af honum. Þau ákváðu að haga baráttu sinni þannig að draga stjórnendur Reykjavíkurborgar að borðinu til að ná sér niðri á þeim en fyrir samninganefnd borgarinnar fer fyrrverandi innanbúðarkona í Eflingu. Allt frá því að Sólveig Anna og Viðar náðu undirtökunum í Eflingu með aðstoð Gunnars Smára Egilssonar, formanns Sósíalistaflokks Íslands, hefur markmið þeirra verið að gera sem mest á hlut þess fólks sem áður leiddi Eflingu.

SorpVegna verkfalls á vegum sósíalistanna í Eflingu safnast upp sorp í Reykjavík. Nú krefjast sósíalistarnir að sama ástand skapist þeim til samúðar í öðrum sveitarfélögum. (Mynd mbl.)

Þá er augljóst að sósíalistarnir líta á meirihluta borgarstjórnar sem æskilegan andstæðing sem gefist fyrr en síðar upp fyrir þrýstingnum sem skapast með því að stöðva leikskólastarf, lama grunnskóla, vega að félagslegri aðstoð við eldri borgara og hindra sorphirðu. Nú er síðan ætlunin að knýja á um samúðarverkföll í öðrum sveitarfélögum til að skapa enn meiri vandræði í samfélaginu í von um að þar með nálgist byltingin sem þau hafa á vörunum, stundum opinberlega en þó oftar í eign hóp. Vonin er að geta stigmagnað átökin til 9. mars þegar BSRB boðar verkföll sín með svipuðum en þó ekki alveg sama bægslagangi og félagarnir í Sósíalistaflokknum.

Áróðurinn gengur út á að í íslenskum samfélagi sé unnið gegn kjörum launafólks þótt staðreyndir segi allt annað.

Páll Kolbeins rekstrarhagfræðingur birti fyrir fáeinum dögumi grein í tímarit Skattsins, Tíund, sem reist er á úttekt hans á skattframtölum fyrir árið 2018, skilað snemma árs 2019. Greinin er löng og ítarleg með mörgum skýringarmyndum. Undir lok úttektar sinnar segir Páll:

„Árið 2018 var Íslendingum gjöfult. Efnahagslífið blómstraði og hagur landsmanna vænkaðist. Það er ekki sjálfgefið að lítil þjóð sem býr við ystu mörk hins byggilega heims, í köldu, blautu og myrku landi, búi við bestu lífskjör í heimi. [...]

Með aukinni velmegun leggur fólk meira upp úr lystisemdum lífsins; mat og drykk, menningu og listum, ferðalögum og námskeiðum og öðru sem kann að gefa lífinu gildi. Á sama tíma læra menn að meta ýmislegt það sem þeir leiða sjaldnast hugann að í amstri dagsins. Þess vegna hafa menn í auknum mæli reynt að meta lífsgæði einstakra þjóða og einstaka þætti sem stuðla að lífsfyllingu og hamingju hvers einstaklings. Þar horfa menn meðal annars til fjölskyldutengsla, félagslegrar stöðu, tækifæris til menntunar, tómstundaiðkunar, starfs og starfsframa, og ekki síður til stöðu einstaklingsins og tækifæra til að hafa áhrif á og móta samfélagið sem hann býr í.“

Hvergi gætir þess í baráttu sósíalistanna í Eflingu að þeir vilja styrki forsendur þess að þjóðlífið þróist á þann hátt sem Páll Kolbeins lýsir hér að ofan. Þvert á móti á að rífa og brjóta án þess að boða nokkurt sem bæti tjónið. Ástæðulaust er að gleyma því að aðeins 8% félagsmanna í Eflingu tryggði þessu fólki völdin sem það beitir núna, engum til góðs.