19.10.2019 10:42

Spenna í neðri deildinni Í Westminster

Fyrir okkur sem fylgjumst ekki með „enska boltanum“ er í dag boðið upp á spennandi „ensk stjórnmál“ í beinni útsendingu á laugadegi.

Nú þegar þessi orð eru skrifuð standa yfir umræður í neðri málstofu breska þingsins þar sem Boris Johnson forsætisráðherra gerir grein fyrir samningnum sem hann náði við EES og staðfestur var í leiðtogaráði ESB fimmtudaginn 17. október. Enginn veit á þessari stundu hvort samningurinn verður samþykktur í þinginu.

Hugsanlegt er að tillaga um frestun úrslita-atkvæðagreiðslunnar nái fram að ganga. Oliver Letwin, fyrrv. ráðherra Íhaldsflokksins, hefur lagt fram breytingartillögu um að forsætisráðherranum beri að óska eftir lengri fresti en til 31. október 2019 fyrir úrsögn Breta hefði ekki verið gengið frá nauðsynlegri lagasetningu fyrir þann tíma.

Boris Johnson leggst eindregið gegn þessari tillögu og segir að með henni sé brugðið fætti fyrir efnislega niðurstöðu málsins. Verði tillaga Letwins samþykkt er líklegt að fundi neðri málstofunnar ljúki án niðurstöðu.

20191019PHOWWW00004Boris Johnson leggur nýjan samning við ESB fyrir þingið.

Þetta er í fyrsta sinn í 37 ár, síðan í Falklandseyja-stríðinu, sem boðað er til fundar í neðri málstofunni á laugardegi. Búist er við að atkvæðagreiðslur hefjist klukkan 14.00 á ísl. tíma í dag (19. október). Fyrir okkur sem fylgjumst ekki með „enska boltanum“ er í dag boðið upp á spennandi „ensk stjórnmál“ í beinni útsendingu á laugadegi.

Á þessari stundu hefur forsætisráðherrann svarað 65 spurningum eftir ræðu sína, það er umræður um ræðuna hafa staðið í tæpar tvær klukkustundir. Hraðinn í umræðunum er mikill og óvenjulega mikil ró hefur verið í þingsalnum.

Takist Boris Johnson að fá meirihluta í neðri deildinni hefur hann unnið pólitískt afrek.

Uppfært 14.08:

Gengið var til atkvæða í neðri deild breska þingsins um klukkan 13.30 að ísl. tíma laugardaginn 19. október um tillögu frá þingmanni Íhaldsflokksins, Sir Oliver Letwin, um að fresta afgreiðslu á tillögu forsætisráðherrans þar til þingið hefði afgreidd alla nauðsynlega löggjöf sem tengist brexit 31. október 2019.  Samþykkt 322 gegn 306. Forsætisráðherrann leggur fram frumvörp um þetta efni og verður fyrsta atkvæðagreiðsla um þau í neðri deildinni að kvöldi þriðjudags 22. október, segir BBC.

Í dag hef ég sett tvær greinar nýlegar greinar mínar úr Morgunblaðinu hér á síðuna. Annars vegar umsögn um nýja bók Andra Snæs Magnasonar Um tímann og vatnið hins vegar um fimm alþjóðastrauma á norðurslóðum. Bendi ég lesendum síðunnar á þær.