15.10.2019 11:19

Félög til almannaheilla og peningaþvætti

Dæmi eru um að félög með ófjárhagslegan tilgang, sem starfa að almannaheillum, hafi verið misnotuð og þá einkum við fjármögnun hryðjuverka.

Alþingi samþykkti miðvikudaginn 9. október 2019 með 27 atkvæðum gegn fjórum sérstök lög um skráningarskyldu félaga til almannaheilla sem stofnað er til eða starfrækt eru í þeim tilgangi að safna eða útdeila fjármunum í almannaþágu og eru með starfsemi yfir landamæri. Málið fór með hraði í gegnum þingið en með lögunum er brugðist við athugasemdum alþjóðlegs vinnuhóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, (e. Financial Action Task Force, FATF). Hefur alþjóðlegi vinnuhópurinn m.a. gert athugasemdir við að ekki sé kveðið á um skráningarskyldu framangreindra félaga hér á landi. Einnig er með lögunum brugðist við niðurstöðum áhættumats ríkislögreglustjóra um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka svo og aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í kjölfar þess.

Membership-association

Í greinagerð með lagafrumvarpinu segir að bregðist ríki ekki við kröfum FATF hafi aðildarríki samstarfsins sammælst um að beita hvert annað þrýstingi eftir því sem við á með því að setja ríki á sérstakan lista yfir „ósamvinnuþýð“ ríki eða ríkjasvæði. Felst þrýstingurinn meðal annars í því að gera strangari kröfur til ríkjanna eða aðila þar búsettra um hvers konar fjármálastarfsemi, stofnun útibúa, dótturfélaga og umboðsskrifstofa og jafnvel útgáfu aðvarana um að viðskipti við aðila þessara ríkja geti falið í sér hættu á peningaþvætti. Ófullnægjandi varnir geta því haft víðtæk áhrif á fjármálakerfið í heild sinni og trúverðugleika á alþjóðavettvangi.

Úttekt FATF á Íslandi lauk í febrúar 2018 og var skýrsla með niðurstöðum hennar birt í byrjun apríl sama ár. Úttektin leiddi m.a. í ljós ýmsa veikleika á íslenskri löggjöf.

Við gerð áhættumats ríkislögreglustjóra um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem birt var í apríl 2019 voru almannaheillafélög tekin til skoðunar. Dæmi eru um að innan aðildarríkja FATF hafi félög með ófjárhagslegan tilgang, sem starfa að almannaheillum, verið misnotuð og þá einkum við fjármögnun hryðjuverka. Í áhættumati ríkislögreglustjóra kemur m.a. fram að heildaryfirsýn yfir almannaheillafélög skortir, þ.e. um skráningu þeirra, tilgang, starfsemi, hverjir eru í fyrirsvari fyrir þau og hvort þau starfa yfir landamæri í ríkjum sem teljast áhættusöm eða nágrannaríkjum þeirra. Niðurstaða ríkislögreglustjóra var að veruleg hætta væri fyrir hendi á að félagsformið yrði misnotað í þágu brotastarfsemi, þar með talið í því skyni að þvætta ólögmætan ávinning. Hvað fjármögnun hryðjuverka varðar vart það niðurstaða ríkislögreglustjóra að fyrir hendi væru ákveðnir veikleikar þegar kemur að almannaheillafélögum.

Vegna þess hve hröð afgreiðsla málsins var á þingi og ekki gafst tóm til að senda það til umsagnar er óljóst hvaða félög það eru sem falla undir þær skilgreiningar sem er að finna í lögunum. Er æskilegt að birtur verði opinber listi um til hvaða félaga er vísað til dæmis í áhættumati ríkislögreglustjóra.