17.9.2019 11:15

Vélabrögð píratans

Þessi ummæli lýsa hugarfarinu í röðum pírata en í sumar bárust oftar en einu sinni fréttir um að flokkurinn væri að springa innan dyra vegna svikráða og vélabragða.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, pírati og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis, sat í Kastljósi að kvöldi mánudags 16. september og talaði í hálfkveðnum vísum um ríkislögreglustjóra. Siðanefnd alþingis taldi hana hafa brotið gegn siðareglum alþingismanna með óvarlegum ummælum um Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins.

Þegar Þórhildur Sunna var kjörin formaður í þingnefndinni að morgni mánudagsins naut hún aðeins stuðnings stjórnarandstæðinga, það er minnihlutans. Þegar Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, bar fram tillögu um að Þórhildur Sunna yrði nefndarformaður lér Brynjar Nielsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, bóka að hann gæti ekki stutt tillöguna. Rökin voru einkum viðbrögð og lítilsvirðing sem Þórhildur Sunna sýndi alþingi og viðkomandi nefndum eftir álit að siðanefndarinnar gegn henni birtist.

Það er skrýtið að þessi sérkennilega staða Þórhildar Sunnu hafi ekki verið rædd sérstaklega í Kastljósinu þegar hún sat þar og sló um sig.

ThHSÞessi mynd birtist á visir.is. Bergþór Ólason flytur ræðu en Þórhildur Sunna sýnir honum óvirðingu með mótmælahúfu í þingsalnum. Hinu megin við ræðupúltið er Björn Leví pírati og mótmælir með Þórhildi Sunnu. Nú vilja píratar ekki Bergþór sem nefndarformann eftir að hafa fengið Þórhildi Sunnu kjörna.

Fréttamenn ríkisútvarpsins hafa meiri áhuga á örlögum annars þingmanns sem situr eins og Þórhildur Sunna með úrskurð siðanefndar gegn sér. Þar er um að ræða miðflokksmanninn Bergþór Ólason sem segist eiga sama rétt og Þórhildur Sunna þegar kemur að vali formanna í þingnefndir. Bergþór taldi þar til að morgni þriðjudags 17. september að hann ætti formannsstólinn í umhverfis- og samgöngunefnd alþingis vísan. Formannsdraumurinn breyttist í martröð á fundinum þegar Björn Leví Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi pírata í nefndinni, stakk um á Karli Gauta Hjaltasyni, meðflokksmanni Bergþórs, sem formanni. Við svo búið var nefndarfundinum slitið.

Á ruv.is er haft eftir Birni Leví:

„Samkomulagið snýst um það að það sé miðflokksmaður í þessum formennskustól. Miðflokkurinn hefur ekki viljað leggja til annan en Bergþór Ólason en það er annar miðflokksmaður í nefndinni. Þegar allt kemur til alls er það nefndin sjálf sem kýs sér formann. Það brýtur ekkert samkomulag þó að Bergþór verði ekki formaður.“

Þessi ummæli lýsa hugarfarinu í röðum pírata en í sumar bárust oftar en einu sinni fréttir um að flokkurinn væri að springa innan dyra vegna svikráða og vélabragða. Þarna ætlar Björn Leví að ákveða nefndarformann fyrir Miðflokkinn eftir að stjórnarandstaðan hefur lagt blessun sína yfir Þórhildi Sunnu sem nefndarformann.

Hluti þessa máls alls er að ágreiningur af þessu tagi leiðir til þess að stjórnarandstaðan fær ekki formann í neinni nefnd. Kannski er Björn Leví í raun að ná sér niðri á Þórhildi Sunnu? Hvers vegna er einn þingmaður með úrskurð siðanefndar á bakinu hæfur til nefndarformennsku en ekki annar?