17.8.2019 11:08

Orðaskipti um fámenni á fundum

Ég ákvað að varðveita orðaskiptin hér á síðunni vegna þess hve sjaldan ég er sakaður um óvild í garð Morgunblaðsins og starfsmanna þess, enda stenst sú ásökun ekki.

Í gærkvöldi (16. ágúst) birtist myndin sem hér fylgir á Facebook-síðu Kristins Karls Brynjarssonar. Hann deildi henni af ruv.is og ég deildi henni á Facebook-síðu mína með þessum ummælum:

„Ef Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefði boðað fundinn hefði Morgunblaðið sent mann á hann til að flytja frétt um fjölda fundarmanna. Þeir virðast um 20 að sjö ræðumönnum meðtöldum. Það eru því 12 eða 13 úr grasrótinni sem fjölmenntu.“

Á mbl.is var sagt frá fundinum sem kynningarfundi og á myndum þar sést að fleiri en blaðamenn sátu fundinn.

68917710_10156250608003204_7807987674949615616_o

Í morgun (17. ágúst) brást Stefán Einar Stefánsson, viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins, við ofangreindum orðum mínum á Facebook og fóru fram orðaskipti okkar í milli sem ég ákvað að varðveita hér á síðunni vegna þess hve sjaldan ég er sakaður um óvild í garð Morgunblaðsins og starfsmanna þess, enda stenst sú ásökun ekki.

Ég vil aðeins árétta það sem fram kemur í orðaskiptum okkar Stefáns Einars að ég alfarið ósammála því sem haldið er fram í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins um að þriðji orkupakkinn marki þáttaskil í samskiptum Íslendinga og ESB í orkumálum. Hvorki er um það að ræða að vald sé framselt til Brussel með því að samþykkja pakkann né að „boðvald“ í orkumálum Íslendinga sé flutt þangað.

Hér koma fyrst viðbrögðin við orðum mínum um myndina og síðan skýrir textinn sig sjálfur:

Stefán Einar Stefánsson Björn Bjarnason voðaleg heift er þetta Björn í garð Morgunblaðsins og sífelldur áróður gegn blaðinu. Finnst þér þú meiri maður með þessum árásum á blaðið og starfsmenn þess?

Björn Bjarnason Stefán Einar Stefánsson heift? Varla er það áróður gegn blaðinu að vekja athygli á fréttum þess? Viðkvæmni þín er athyglisverð. Hafi ég ýtt á auman blett, biðst ég fúslega afsökunar. Ekki dettur mér í hug að slá mér upp á kostnað blaðsins.

Stefán Einar Stefánsson Björn Bjarnason þú lætur að því liggja að fréttamat blaðamanna mbl.is sé ófaglegt. Það er ómaklegt og órökstutt en ber keim af því hvernig þú hefur hagað umfjöllun þinni um Morgunblaðið í þessu máli. Að sjálfsögðu vekur það undrun og ég held að starfsfólk Morgunblaðsins hafi síst àtt von á þessum árásum úr þessari átt. En lífið kemur sífellt á óvart. Maður spyr: hvað næst?

Björn Bjarnason Stefán Einar Stefánsson ég hef hvergi látið að þessu liggja. Mér finnst þetta sniðugar fréttir um ferð Más. Hann hefði betur setið heima. Ég er ósammála ritstjórnarstefnu Morgunblaðsins vegna 3ja orkupakkans, ég er ósammála því sem margir greinarhöfundar blaðsins segja um málið. Ég undrast þegar blaðamenn mbl taka að sér hlutverk aktívista í málinu. Að segja orð mín af þessu tilefni ómakleg og órökstudd er eitt en að saka mig um árásir á starfsfólk Morgunblaðsins er rangt og með öllu ósanngjarnt. Það gerist næst að ég held áfram áskrift að blaðinu, skrifa í það þegar svo ber undir og gagnrýni þegar ég tel það réttmætt. Fréttir af því hve margir sækja kveðjufundi seðlabankastjóra eru faglega unnar, það er einnig faglegt hjá fréttastofu ríkisútvarpsins að birta mynd frá fundi 3ja pakka andstæðinga og tillitssamt að andlit fundarmanna sjáist ekki. Þetta var einnig gert þegar fámennu fjöldafundir þessa sama fólks voru á Austurvelli í vor. Að vekja athygli á ólíku fréttamati hefur lengi verið tíðkað, ekki síst á Morgunblaðinu. Vonandi verður því haldið áfram. Það skortir meira en fjármuni til að tryggja framtíð íslenskra fjölmiðla.

Stefán Einar Stefánsson Björn Bjarnason þú veist jafn vel og ég, geri ég ráð fyrir, að það er ekki hægt að líkja saman blaðamannafundum og fræðslufundum. Fyrrnefndu fundirnir fá alla jafna litla aðsókn, misjafnt er með hina. Þú stilltir þessu upp sem sambærilegum hlutum og hnýttir í fréttamat starfsmanna Morgunblaðsins í leiðinni. Það var ómaklegt.

Auk þess undra ég mig á ummælum þínum um meintan aktívisma blaðamanna Morgunblaðsins. Enginn hefur áunnið sér þá heiðursnafnbót í tengslum við þetta mál. Fremur væri að leita aftar í söguna til að hengja slíkt á menn og það með réttu.

Björn Bjarnason Stefán Einar Stefánsson nú, var þetta blaðamannafundur í Safnahúsinu með sjö spekingum á palli og stólum fyrir hátt í 100 blaðamenn? Með aktivisma blaðamanna á ég við framgöngu hér í netheimum. Hún er nýmælið. Á blaðinu var um það skýr regla í minni tíð þar að gera mun á fréttum, fréttaskýringum annars vegar ritstjórnargreinum og dálkum undir nafni hins vegar.

Stefán Einar Stefánsson Björn Bjarnason enn á ný heggur þú í blaðamenn. Ert líkur Trump að því leyti. Enn er gerður skýr og klár greinarmunur á fréttum, fréttaskýringum og ritstjórnargreinum. Kannski fellur þér ekki þátttaka blaðamanna í opinberri umræðu á netinu en það er þitt vandamál. Það gera þeir um heim allan og þykir ekkert tiltökumál nema kannski í Rússlandi og Kína. Ástæða þess að þátttaka blaðamanna í þessari umræðu er kannski sú að þegar þú komst enn að fjölmiðlum var internetið ekki einu sinni til - svo langt er síðan. En frá árinu 1991 hefur margt breyst. Flest til batnaðar þótt sumir endi seint á vegferðinni úti í skurði, með uppnefnum og dylgjum, m.a. í garð blaðamanna sem ekkert hafa unnið sér inn til slíkra traktering, síst af öllu frá þér.

Björn Bjarnason Stefán Einar Stefánsson ég vék að netvirkni blaðamanna sem nýmæli. Þú tekur undir þá skoðun. Hitt er annað mál að menn greinir á um það sem sagt er á netinu eins og endranær. Svo að það liggi fyrir hér hef ég allt aðra skoðun en Trump á fjölmiðlum og fjölmiðlamönnum. Fullyrðingar um annað eru tilhæfulausar. Ég þekki manna best breytingarnar sem urðu með komu internetsins og sætti ámæli úr ólíklegustu áttum þegar ég hóf að nýta mér það 1995 eins og ég hef gert síðan, skapað mér eigið rými og frelsi. Ef þú telur mig hafa lent út í skurði með því að tala um aktívista í hópi blaðamanna Morgunblaðsins get ég glatt þig með því að jafnvel á mínum aldri hef ég burði til að halda áfram.