22.7.2019 10:56

Léttvæg óeiningarrök

Nú er þessu máli einkum haldið á loft af þeim sem nota þriðja orkupakkann til að ala á óeiningu innan Sjálfstæðisflokksins.

Hvernig sem á umræðurnar um þriðja orkupakkann er litið sést að þar er gerður úlfaldi úr mýflugu. Rifja má upp að vorið 2015 samþykktu þingmenn sem nú eru í Miðflokknum hluta þriðja orkupakkans með setningu laga á þingi.

Þá fórst fyrir að lögfesta sjálfstæði Orkustofnunar eins og nú á að gera. Með þeirri lögfestingu árið 2015 hefði líklega mátt taka þriðja orkupakkann upp í EES-samninginn í maí 2017 án þess að setja fyrirvara um samþykki alþingis. Vegna fyrirvarans skapaði upptakan íslenska ríkinu hins vegar þjóðréttarlegar skyldur og þeim er utanríkisráðherra að fullnægja með þingsályktunartillögu sinni.

Nú er þessu máli einkum haldið á loft af þeim sem nota þriðja orkupakkann til að ala á óeiningu innan Sjálfstæðisflokksins. Það má svo sem segja að ekki komi á óvart að gripið sé lítilfjörlegt mál til þeirrar iðju því að þegar að þeim málum kemur sem varða þjóðarhag mestu er erfitt fyrir óeiningarmenn innan flokksins eða aðra að finna gagnrýnisefni.

Hér hefur verið vakin athygli á hvernig félagar í samtökunum Nei til EU í Noregi kveiktu ófriðarelda um þetta mál hér á landi. Unnt er að dagsetja hvenær óvinafagnaðurinn hófst innan Sjálfstæðisflokksins, á landsfundinum 16. til 18. mars 2018.

C846bad4a6f98a0f6ab6a8f49f10ce8a-imageNei til EU í Noregi gaf út þennan bækling. Forsíðumyndin sýnir hvernig samtökin líta á baráttuna gegn ACER, sem við köllum þriðja orkupakkann hér á landi. Skammstöfunin ESFS stendur fyrir evrópska fjármálaeftirlitið, ERA fyrir evrópsku járnbrautastofnunina. Allt eru þetta fagstofnanir til að tryggja hindrunarlaus viðskipti á sameiginlega EES-markaðnum. Nei til EU notar þær sem tákn fyrir niðurbrot EFTA-stoðarinnar í EES-samstarfinu. Merki um þann áróður sést einnig hér.

Þeir sem létu hræra í sér frá Noregi telja sig meiri fullveldissinna en hina sem líta málið þeim augum að það skerði á engan hátt fullveldi þjóðarinnar. Af því að Nei til EU telur um framsal á norsku fullveldi að ræða vilja sporgöngumennirnir hér ekki sitja skör lægra án þess þó að færa nokkur rök fyrir í hverju valdaframsal íslenska ríkisins felst.

Arnar Þór Jónsson héraðsdómari hefur reifað sjónarmið um skaðabótaskylt valdaframsal í greinum í Morgunblaðinu til ánægju fyrir óeiningarmenn innan Sjálfstæðisflokksins. Nú um helgina mildaði hann afstöðu sína með færslu á Facebook og sagði að skrif hér á síðunni leiði til „sönnunarbyrði fyrir að innleiðing O3 sé skaðlaus fyrir íslenskan almenning og fyrirtæki“. Þetta leiði af „alþekktum lagalegum meginreglum um sönnun“. Meðan fylgismenn O3 hafi ekki axlað þessa byrði telur dómarinn „blasa við að innleiðing væri ábyrgðarlaus“.

Hér skal því mótmælt að ekki megi mynda sér skoðun reista á skynsamlegum rökum og skýrum forsendum án þess að axla um leið „sönnunarbyrði“ um að ekki rætist sviðsmynd sem Arnar Þór hefur hannað um skaðabótaskyldu íslenska ríkisins sé hafnað tilmælum um að tengja sæstreng grunnvirki íslenska orkukerfisins þótt orka sé vara innan EES-svæðisins.

Í marga áratugi hefur verið rætt um sæstreng fyrir raforku frá Íslandi. O3 markar þar engin þáttaskil. Frá því að Ísland breytti raforkulögum sínum árið 2003 í samræmi við EES-kröfur hefur verið litið á Ísland sem ótengda eyju og að hnattstaðan sé eðlileg hindrun viðskipta á sameiginlega EES-orkumarkaðnum. Er ekki nokkuð langsótt að íslenska ríkið sé skaðabótaskylt fyrir „viðskiptahindrun“ sem rekja má til legu Íslands? Það þarf hugmyndaríkan dómara til að telja að svo sé.