15.6.2019 9:21

Upplýsingafalsanir um ESB-mál

Bent er á að Rússar hafi tekið upp nýja aðferð. Þeir beini athygli sinni ekki lengur að stórmálum heldur taki upp þráðinn í sérgreindum, staðbundnum málum sem valda ágreiningi, ýti undir hann og skerpi með ráðum og dáð.

Framkvæmdastjórn ESB skýrði föstudaginn 14. júní frá því að „rússneskir heimildarmenn“ hefðu staðið að baki dreifingu rangra upplýsinga til að vinna gegn kjörsókn í ESB-þingkosningunum í maí og hafa áhrif á viðhorf kjósenda. Markmiðið var meðal annars að ýta undir öfgaskoðanir til að valda meiri deilum en ella á opinberum vettvangi.

99495287c040cdd110f86a45c0c40bd4Framboðsauglýsingar fyrir ESB-þingkosningarnar.

Af hálfu ESB var bent á meira en þúsund dæmi um þessa íhlutun Rússa. Meðal þess sem kynnt var til sögunnar í þágu róttækra þjóðernissjónarmiða var að eldurinn sem varð laus í Notre Dame kirkjunni í París í apríl væri til marks um „undanhald vestrænna og kristinna sjónarmiða innan ESB“. Þá var „djúpríkið“ nefnt til sögunnar eða „leyniþjónustur Þýskalands og Spánar“ til að skýra hvers vegna austurríska ríkisstjórnin hefði fallið eftir að birt var myndband af leiðtoga vinaflokks Pútíns Rússlandsforseta í laumuspili með útsendara rússnesks auðmanns.

Bent er á að Rússar hafi tekið upp nýja aðferð. Þeir beini athygli sinni ekki lengur að stórmálum heldur taki upp þráðinn í sérgreindum, staðbundnum málum sem valda ágreiningi, ýti undir hann og skerpi með ráðum og dáð.

Á vefsíðunni EUobserver er föstudaginn 14. júní vitnað í Alex Krasodomski-Jones, forstjóra Centre for the Analysis of Social Media hjá Demos sem segir að markmið þessara upplýsingaherferða sé að hafa áhrif á þá sem hallast að ákveðnum málstað, draga almennt úr gæðum upplýsingaskipta og inntaki upplýsinga.

Umræður um þessi mál eiga erindi við okkur Íslendinga. Auðvelt er að setja deilurnar um þriðja orkupakkann í ramma miðlunar á röngum upplýsingum. Hér er líka erlendur þráður í málinu, norskir andstæðingar EES-samstarfsins. Þeir hafa miðlað upplýsingum til Íslands sem hafa verið færðar í íslenskan búning þótt þær eigi alls ekki við íslensku umhverfi.

Á alþingi hefur Miðflokkurinn gerst málsvari þessara rangfærslna. Hann hefur nú sannfærst svo mjög um ágæti eigin málstaðar að flokkurinn vill sérfræðinganefnd til að skoða málið, það sé tímabært! Málið hefur verið á dagskrá síðan 2010 en það var ekki fyrr en í mars 2018 þegar nei-ESB/EES-menn urðu undir í Noregi og sneru sér þá til Íslands í von um að geta hefnt ófaranna í stórþinginu þar.

Ekki er nóg með að Miðflokkurinn gangi erinda upplýsingafalsara í þriðja orkupakkamálinu heldur gerir Morgunblaðið það einnig í ritstjórnargreinum sínum. Þær snúast þó æ minna um efni málsins en hafa breyst í uppgjör við Sjálfstæðisflokkinn, forystumenn hans, einstaklinga og ættir þeirra.

Þriðji orkupakkinn stendur alls ekki undir stórdeilum sem þessum. Engum getur orðið svona heitt í hamsi vegna áforma um að styrkja sjálfstæði Orkustofnunar til neytendaverndar. Orkupakkinn hlýtur að vera yfirvarp í þessum stórdeilum. Það ætti að verða andstæðingum hans fagnaðarefni að gengið yrði sem fyrst til atkvæða um pakkann á alþingi þar sem yfirgnæfandi meirihluti þingmanna styður hann. Þeir losnuðu þá úr fjötrum pakkans og gætu snúið sér að einhverju sannkölluðu þjóðþrifamáli.