25.5.2019 11:05

Sjálfstæðisflokkurinn 90 ára

Aldrei hefur verið nein lognmolla í kringum Sjálfstæðisflokkinn. Sama gildir enn þann dag í dag, flokkurinn stendur enn í fremstu röð stjórnmálaflokkanna.

Þess er minnst í dag að 90 ár eru frá því að Frjálslyndi flokkurinn og Íhaldsflokkurinn tóku höndum saman og stofnuðu Sjálfstæðisflokkinn, öflugasta stjórnmálaafl þess tíma sögunnar sem síðan er liðinn.

Aldrei hefur verið nein lognmolla í kringum Sjálfstæðisflokkinn. Sama gildir enn þann dag í dag, flokkurinn stendur enn í fremstu röð stjórnmálaflokkanna. Varla kemur upp það mál í þjóðfélagsumræðunum að ekki sé á einn eða annan hátt höfðað til sjálfstæðismanna við lausn þess.

845105Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2018.

Stefnunni sem Sjálfstæðisflokkurinn fylgir og reist er á svigrúmi einstaklingsins til orðs og athafna er gjarnan lýst á þann veg að hún mótist af eðlishvöt mannsins. Þess vegna sé hún ekki reist á hátimbruðum lýsingum í anda sósíalisma þar sem menn töldu sig hafa fundið leið til að skapa mannlegu samfélagi nýja umgjörð eða jafnvel skapa nýja manngerð, homo sovieticus.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt lykilaðild að öllum mikilvægustu ákvörðunum þjóðarinnar um samskipti við aðrar þjóðir. Nafn hans vísar til baráttunnar fyrir því að Ísland yrði sjálfstætt ríki og lýðveldi.

Með sjálfstæðinu tók íslenska ríkið á sig ábyrgð eigin utanríkis- og öryggismála. Hlutleysinu var endanlega hafnað með stofnaðildinni að Atlantshafsbandalaginu (NATO) árið 1949 og öryggið síðan tryggt með varnarsamningnum við Bandaríkin árið 1951. Um þessar ákvarðanir hefur Sjálfstæðisflokkurinn staðið vörð.

Flokkurinn réð úrslitum um aðildina að EFTA árið 1970 og beitti sér fimm árum síðar fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 sjómílur. Hann tryggði að alþingi samþykkti aðild að evrópska efnahagssvæðinu snemma árs 1993.

Varðstaða um aðildina að evrópska efnahagssvæðinu (EES) jafngildir varðstöðu um nútímalegt samfélag á Íslandi með kostum þess og göllum. Svarta myndin sem dregin hefur verið upp af aðildinni að EES vegna ágreinings um þriðja orkupakkann vekur undrun þegar litið er til breytinganna á íslensku samfélagi undanfarin 25 ár. Þegar grannt er skoðað sýnist málið snúast um hvort lagður verði sæstrengur frá Íslandi til ESB-ríkis einhvern tíma í framtíðinni. Hér hefur verið lagt til að ákvörðun um það verði í höndum þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu.

Fyrir stjórnmálaflokk sem starfað hefur í 90 ár hefur margt breyst þegar litið er til starfshátta á stjórnmálavettvangi og í stjórnmálabaráttunni. Breytingin í fjölmiðlun og leiðum til að koma málstað sínum á framfæri hefur gjörbreyst. Frá barnæsku ólst ég til dæmis upp við náin tengsl forystumanna Sjálfstæðisflokksins við Morgunblaðið og stjórnendur þess. Vinátta föður míns við Matthías Johannessen ritstjóra var mikil og djúpstæð. Er ég sannfærður um að samskiptin voru þeim báðum til góðs í störfum þeirra auk þess að stuðla að málefnalegum umræðum í þágu flokks og þjóðar. Þá gat Morgunblaðið treyst á að öruggur hópur fólks stóð að baki því í átökum sem oft voru hörð.

Þetta er allt breytt. Fjölmiðlun hefur tekið á sig nýjan svip. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki tileinkað sér alla kosti sem eru í boði til áhrifa í netheimum. Til að 90 ára gamall flokkurinn sé síungur ætti hann að leggja meiri áherslu á það á tímum hnignandi fjölmiðla.