22.5.2019 8:29

Fjártækni í keppni við afturhaldsöflin

Breytingar á sviði fjártækni eru mjög hraðar. Þær eru reistar á samkeyrslu bankaþjónustu og fjarskiptatæknifyrirtækja. Munu afturhaldsöflin sem nú birtast í Miðflokknum leggjast gegn þeim eins og þriðja orkupakkanum?

Breytingar á sviði fjártækni eru mjög hraðar. Þær eru reistar á samkeyrslu bankaþjónustu og fjarskiptatæknifyrirtækja. Munu afturhaldsöflin sem nú birtast í Miðflokknum leggjast gegn þeim eins og þriðja orkupakkanum?

Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri Reiknistofu bankanna, segir í Fréttablaðinu (Markaðnum) í morgun (22. maí):

„Hverjar eru stærstu ógnanirnar við fjármálafyrirtæki? Það eru annars vegar tæknirisar, við sáum til dæmis Apple Pay tekið í notkun nýlega, og hins vegar smærri og sérhæfðari nýsköpunarfyrirtæki.[...]

Við erum langt á eftir öðrum þjóðum í þessum efnum sem er skrýtið miðað við það hversu nýjungagjörn við erum. Ein ástæðan gæti verið sú að hér er meiri korta­útbreiðsla en víðast hvar eða að tæknilausnirnar hafi ekki verið nógu einfaldar í notkun.“

Nú geta viðskiptavinir Landsbankans og Arion banka tengt kredit- og debetkort sín við Apple Pay og Íslandsbanki hefur tilkynnt að Apple Pay sé á leiðinni hjá bankanum. Ragnhildur hefði viljað sjá Íslendinga vera fljótari að tileinka sér farsímagreiðslur og vonar að vinsældir Apple Pay ýti við markaðinum.

Þrátt fyrir að hafa fengið hvatningu frá banka mínum um að tengja kort við Apple Pay skortir enn glöggar leiðbeiningar um hvernig eigi að nýta tæknina. Kannski er það reynslan sem ræður því, reist á leiðbeiningum fólks sem selur og veitir þjónustu.

Use-apple-pay-social-cardÞessi þróun skýrir áhersluna sem stóru bankarnir hafa að undanförnu lagt á að auglýsa smáforrit (öpp) sín. Þar á bæ átta menn sig á að síminn og smáforrit í honum taka við af kortunum. Verður þess áreiðanlega ekki langt að bíða að þau hverfi sem milliliður reikningseiganda þegar hann færir fé af reikningi sínum. Í samtalinu segir Ragnhildur raunar:

„Kvitt [sem er kerfi Reiknistofu bankankanna] gengur út á það að millifæra frá einum reikningi til annars, ólíkt Apple Pay sem er tengt korti. Kvitt er þannig skilvirkari og ódýrari leið sem byggir á innviðum í greiðslumiðlum. Það eru talsverðar breytingar væntanlegar á korta- og greiðslumörkuðunum, m.a. vegna innleiðingar á PSD2-löggjöfinni og það verður því áhugavert að fylgjast með hvernig mál muni þróast.“

Yfirlýst markmið evrópsku PSD2-tilskipunarinnar er að auka samkeppni í greiðsluþjónustu, styðja við nýsköpun, bæta neytendavernd og eignarhald neytenda á gögnum samhliða því að búa til einn samevrópskan markað fyrir greiðsluþjónustu innan EES. Innleiðing EES-reglma um þetta er mjög flókin en ramminn um reglurnar hefur verið mótaður hér meðal annars með innleiðingu evrópskra reglna um persónuvernd fyrir ári.

Þegar annars vegar er litið á þessa byltingu sem snertir hvern einasta borgara landsins og innreið hennar í íslenskt samfélag og hins vegar á afturhaldsöflin sem tala nú nótt sem nýtan dag á alþingi gegn tómum þriðja orkupakkanum er ástæða til að spyrja hvaða illi andi hafi hlaupið í þá sem umturnuðust vegna orkupakkans. Eða eru áhyggjur unga fólksins ef til vill réttmætar: Eru þessi öfl á móti aðild Íslands að sameiginlega EES-markaðnum? Sífellt fleira bendir til að svo sé.