19.4.2019 12:11

Heimildarmynd um samfélagsbyltingu

Minnt er á að Neskaupstaður er „endastöð“ í þeim skilningi að þeir sem koma þangað akandi verða að fara sömu leið til baka.

Að kvöldi skírdags, 18. apríl, sýndi ríkissjónvarpið heimildarmyndina Litla Moskva um Neskaupstað eftir Grímur Hákonarson. Í myndinni er rætt við fólk í kaupstaðnum og lýst breytingum sem þar hafa orðið. Myndin snýst um stjórnmál og atvinnumál.

Nafnið er sótt til þess að á Neskaupstað höfðu sósíalistar og kommúnistar undirtökin í bæjar- og atvinnulífi í um hálfa öld. Nú sjá ýmsir viðskiptatækifæri felast í því að gera út á þessa fortíð til að laða ferðamenn til staðarins. Minnt er á að Neskaupstaður er „endastöð“ í þeim skilningi að þeir sem koma þangað akandi verða að fara sömu leið til baka.

Myndin er gerð áður en ný göng tengja Neskaupstað og Eskifjörð og akvegurinn um Oddskarð hættir sem landleið milli staðanna. Einn viðmælandinn í myndinni spáir því að framvegis tali menn á staðnum um „fyrir og eftir göng“ eins og sagt sé „fyrir og eftir Krist“ í mannkynssögunni. Þáttaskilin verði svo mikil fyrir staðinn og þá sem þar búa eða leggja þangað leið sína.

GPM_1235-minniMyndin er af vefsíðu verkis.is og er tekin 11. nóvember 2017 þegar Norðfjarðargöng voru opnuð. Þau eru 7,5 km á lengd, lengstu veggöng á landinu og liðu fjögur ár frá upphafi verks þar til göngin voru opnuð.

Pólitísk og samfélagsleg bylting hefur orðið með sameiningu 14 sveitarfélaga á Austurlandi í Fjarðabyggð í nokkrum áföngum á árunum 1988 til 2018. Á vefsíðu Fjarðabyggðarsegir :

„Bæjarkjarnar sveitarfélagsins eru sjö talsins og jafnan kenndir við firðina eða víkurnar sem þeir standa við. Það er þó ekki einhlítt. Neskaupstaður í Norðfirði er fjölmennasta byggðin, með um 1.500 íbúa, en minnst er Brekkuþorp í Mjóafirði með 15 íbúa. Á Eskifirði eru íbúar um 1.000 talsins og tæplega 1.300 búa á Reyðarfirði. Á Fáskrúðsfirði eru íbúar um 700, um 200 manns búa á Stöðvarfirði og í Breiðdal búa einnig um 200 manns.“

Bylting varð í atvinnumálum á þessum slóðum árið 2007 þegar álver Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði hóf rekstur. Álverið er það stærsta á Íslandi og flytur árlega út sem samsvarar 10% af vergri landsframleiðslu.

Um þessar breytingar allar er fjallað í heimildarmyndinni Litla Moskva og af henni má ráða að traustið sem stjórnendur bæjarfélagsins og atvinnulífsins á Neskaupstað höfðu aflað sér réð úrslitum um að þessi bylting varð á Austurlandi.

Forvitnilegt verður að sjá nýja heimildarmynd um áhrif Norðfjarðarganga sem voru opnuð 11. nóvember 2017. Myndin Litla Moskva var gerð af trúverðugri hógværð sem styrkir heimildargildi hennar.