23.1.2019 10:46

Fordómar vegna EES

Eitt er að leyfa sér að hreyfa hugmynd til umræðu og annað að starfshópur geri eitthvað að tillögu sinni.

Það má ekki láta hættuna á að manni séu gerðar upp skoðanir á opinberum vettvangi aftra sér frá að kalla fram umræður. Að stuðla að þeim getur verið nauðsynlegur liður í því að kanna afstöðu til einhverra atriða. Þetta vakti fyrir mér í grein í Morgunblaðinu 28. desember 2018 sem lauk á þessum orðum:

„Fræðimenn getur greint á um hvort EES-gerð sé þess eðlis að hún rúmist innan stjórnarskrárinnar. Þeir eru hins vegar allir sammála um að laga beri stjórnarskrána að alþjóðasamstarfi. Eftir þeim ráðum fara stjórnmálamenn þó ekki.

Ótti stjórnmálamanna ræðst af andstöðu við aðild Íslands að ESB. Þar tengjast illu andarnir sem áður er getið [flumbrugangur vegna stjórnarskrárinnar og ESB-aðildarumsóknar á árunum 2009 til 2013]. Þá má kveða niður með því að festa aðildina að EES eina í stjórnarskrána.“

Vegna þessara orða hefur Tómas Ingi Olrich, fyrrv. ráðherra og sendiherra, skrifað fjórar greinar í Morgunblaðið, varnaðarorð í garð ESB og gagnrýni á EES-aðildina. Eru þær gagnlegt innlegg í athugun sem unnin er undir minni forystu í umboði utanríkisráðherra á kostum og göllum EES-aðildarinnar.

Esa.width-720Tómas Ingi gengur þó skrefi of langt þegar hann telur ofangreind orð gera mig vanhæfan til að leiða þetta starf. Hann segir í Morgunblaðinu í dag:

„Það er ekki viðeigandi að fela þeim þessa athugun sem hafa þegar komist að þeirri niðurstöðu að samningurinn hafi reynst okkur mjög vel, svo vel að það eigi að búa honum sérstakt svigrúm með breytingu á stjórnarskrá Íslands.

Hætt er við að sú ótímabæra niðurstaða leiði til þess sem við höfum hingað til nefnt fordóma og leiða af sér óhæfi til að fjalla hlutlaust um reynsluna af EES.“

Eitt er að leyfa sér að hreyfa hugmynd til umræðu og annað að starfshópur geri eitthvað að tillögu sinni. Ef eitthvað eru fordómar í þessum skrifum er þá að finna hjá Tómasi Inga þegar hann þykist sjá fyrir efni skýrslu starfshópsins. Rökstuddar skoðanir mínar á EES-samningnum hafa legið fyrir í skýrslu frá mars árið 2007.

Ég tel æskilegt að víðtæk samstaða náist um stöðu EES-samningsins innan íslenskrar stjórnskipunar. Þar eru vandkvæði sem snúa mest að innlendum stjórnarháttum. Þetta ber að ræða á opinberum vettvangi og að því vil ég stuðla. Hver niðurstaðan verður í þessu efni er á valdi þeirra sem fjalla um íslensku stjórnarskrána en ekki okkar sem falið hefur verið að kanna kosti og galla EES-aðildarinnar.