22.1.2019 10:52

Formyrkvun Samfylkingar

Í þessum umræðum kom Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur fram sem talsmaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins, Samfylkingarinnar.

Þingstörf hófust að nýju eftir jólahlé mánudaginn 21. janúar. Í upphafi þeirra var umræða sem bar svipmót af eldhúsdegi. Þingmenn tóku til hjá sér eftir jólin og ræddu hvert stefndi með vorinu.

1-I2_TSx-oXRVtEneSRQRxWQTveir þingmenn utan flokka, Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, voru ekki á mælendaskrá með talsmönnum flokka í þessum almennu umræðum. Þeir upplýstu að skrifstofa alþingis hefði sagt að þeir fengju fimm mínútur. Þegar á reyndi hefði Steingrímur J. Sigfússon þingforseti ekki sett þá á mælendaskrána. Steingrímur J. sagðist ekki hafa fengið nein boð um að þeir félagar hefðu beðið um orðið!

Þetta er skrýtið eins og ýmislegt fleira í forsetastjórn Steingríms J. Sigfússonar:

Hann sat undir ámæli í sumar fyrir hvernig hann hélt á boðinu til Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins. (Viðbrögð sumra þingmanna við komu hennar voru í svipuðum dúr og kvartanir innan Seðlabanka Íslands vegna listaverka Gunnlaugs Blöndals.)

Hann klúðraði málskoti vegna bar-samtals sex þingmanna til siðanefndar alþingis og boðaði síðan leið út úr klúðrinu sem er ekki minna klúður.

Hann skortir lipurleika til að koma til móts við þingmenn utan flokka sem fara ekki fram á annað en að fá að vera á mælendaskrá með fulltrúum þingflokka.

Í þessum umræðum kom Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur fram sem talsmaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins, Samfylkingarinnar. Hann flutti ræðu sem andsvarendum þótti formyrkvuð. Guðmundur Andri gaf þá skýringu á hörmungalýsingum sínum á samfélagi líðandi stundar að hann vitnaði þar í grein eftir Stefán Ólafsson prófessor sem hefði birst á vefsíðunni Kjarnanum 8. janúar.

Eftir að sósíalistar undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur og Viðars Þorsteinssonar, félaga í Sósíalistaflokki Íslands, náðu undirtökunum í Eflingu-stéttarfélagi var Stefán Ólafsson prófessor ráðinn í hlutastarf sem sérfræðingur og ráðgjafi félagsins. Gerðist það áður en sagt var frá „félagssviði“ Eflingar, samstarfsvettvangi félagsins og Sósíalistaflokksins.

Gunnar Smári Egilsson, áður náinn samstarfsmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Baugi, átti frumkvæði að Sósíalistaflokknum. Yfirlýsingar Gunnars Smára sl. haust báru þess merki að fjölskylda hans ætti framfærslu sínar nú undir störfum eiginkonu hans fyrir Eflingu.