17.12.2018 10:20

Óverðugar fyrirmyndir

Frétta- og stjórnmálaskýrendur í Frakklandi segja að nú beri mótmæli gulvestunga þar greinilega með sér að í þeim sameinist öfgamenn frá hægri og vinstri,

 

Hér var í gær fjallað um heimfærslu á því sem gerist erlendis og þá áráttu, skort á hugmyndaflugi eða andlegu leti sem birtist í því að apa eitthvað eftir án þess að átta sig á efni málsins.

Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður fjallar um einn þátt þessa máls í leiðara Fréttablaðsins í dag (17. desember) og segir að hér séu „ýmsir sem vilja gerast alvöru mótmælendur og fara um brjótandi og bramlandi, eins og stundað hefur verið í Frakklandi síðustu vikur. Þar klæðast mótmælendur gulum vestum og ganga um höfuðborg sína og velta bílum og kveikja í þeim, brjóta rúður verslana og fyrirtækja og slást við lögreglumenn“.

Kolbrún segir:

„Gulu vestin eru orðin tákn um ofbeldisfull mótmæli sem enginn ætti að vera stoltur af. Verkalýðsforingjarnir Ragnar Þór Ingólfsson og Vilhjálmur Birgisson virðast hins vegar horfa til hinna frönsku mótmælenda með velþóknun og jafnvel vott af öfund. Báðir hafa stoltir tilkynnt að þeir hafi pantað sér gul vesti. Eins og við var að búast hafa vestin sömuleiðis gert lukku innan Sósíalistaflokksins þar sem þau hafa verið til sölu. Á þeim kontór er beðið með mikilli óþreyju eftir byltingunni. Hætt er við að sú bið verði æði löng, ef ekki bara endalaus.“

Í Morgunblaðinu er í lítilli frétt leitast við að gera því skóna að sala á gulum vestum hafi eitthvað aukist hér á landi. Fréttin stendur ekki undir nafni en er samt birt, líklega til að gleðja þá sem Kolbrún lýsir hér að ofan.

B9717964002Z.1_20181216213100_000-GC0CKI3QD.2-0Belgíska lögreglan dreifir mótmælendum úr hópi Flæmingja í Brussel.

Hálfgerð stjórnarkreppa er í Belgíu vegna þess að einsmálsflokkur Flæmingja notaði fund Sameinuðu þjóðanna í Marrakesh á dögunum um samþykkt um réttindi farandfólks til að segja sig frá stjórninni. Til að fylgja öfgafullum sjónarmiðum sínum eftir hefur flokkurinn stofnað til mótmælaaðgerða í Brussel.

Á samfélagsmiðlum má sjá að hér telja sumir þessi mótmæli Flæmingja í Brussel til fyrirmyndar.

Frétta- og stjórnmálaskýrendur í Frakklandi segja að nú beri mótmæli gulvestunga þar greinilega með sér að í þeim sameinist öfgamenn frá hægri og vinstri, þeir berjist hlið við hlið gegn lögreglunni og ráðist á eignir almennra borgara fyrir utan að gæta þurfi þjóðlegra minnismerkja sérstaklega.

Í lok leiðara síns segir Kolbrún:

„Hinir herskáu verkalýðsforingjar hér á landi myndu gera vel í því að taka sinnuskiptum. Heppilegt væri að byrja á því að sýna auðmýkt með því að pakka niður gulu vestunum sínum og viðurkenna að hafa hlaupið illilega á sig.“