16.12.2018 10:39

Rangar heimfærslur

Við skilning á því sem allt í einu verður efst á baugi hér auðveldar oft að hafa þessi hnattvæðingartengsl í huga.

Á tímum hnattvæðingarinnar þegar flæði upplýsinga er takmarkalaust og auðvelt að lifa sig inn í stjórnmáladeilur og átök um heim allan gætir þess í vaxandi mæli að menn heimfæri vanda í einu landi upp á eigið land.

042b6366538476409eb3445e608934ca2209e3369de69b93c334e982ba360d5aÞað er sérkennilegt að talið sé réttmætt að herma eftir þessum frönsku mótmælendum hér á landi. Ber fyrst og síðast vott um skort á sjálfstrausti.

Þessi fullyrðing skal rökstudd með þremur nýlegum dæmum:

  1.          Vaxandi óvild í garð Brusselmanna víða innan ESB og deilurnar í Bretlandi um úrsögn Breta úr ESB setja svip á umræður um aðild að EES-samstarfinu hér á landi. Ofsafengnar túlkanir á efni 3. orkupakkans og áhrifum hans hér eru í engu samræmi við það sem í skjalinu segir. Andstæðingarnir eru jafnframt undir sterkum áhrifum frá hópum í Noregi sem urðu undir í deilum um orkupakkann þar. Að líkja stöðu Norðmanna og Íslendinga saman þegar rætt er um útflutning á raforku stenst ekki.
  2.         Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur árum saman gilt samningur um réttarstöðu flóttafólks. Lengi hefur verið að því unnið að þjóðir heims sammæltust um réttarstöðu farandfólks. Samþykkt um það efni er nú á lokastigi innan Sameinuðu þjóðanna. Þar eru sett 23 markmið og í texta meginmáls er að finna hátíðleg fyrirheit um hvernig unnið skuli að framkvæmd þeirra án nokkurra lagalegra skuldbindinga. Ekkert af því sem segir í þessari samþykkt hróflar við íslenskum lögum. Engu að síður eru höfð uppi stór orð um svik íslenskra stjórnmálamanna, einkum sjálfstæðismanna, í málinu! Í umræðum um það eru heimfærð atriði sem snerta Íslendinga ekki neitt vegna legu lands þeirra.
  3.         Sumir láta hér eins og ástæða sé til að grípa til samskonar aðferða við að koma skoðunum sínum á framfæri og gulvestungar gera í Frakklandi. Þeir sem þannig tala átta sig ekki á frönskum baráttuhefðum, muninum á aðferðum hér og þar við lausn ágreiningsmála um kaup og kjör eða þróun lífskjara í stöðnuðu frönsku hagkerfi.

 

Við skilning á því sem allt í einu verður efst á baugi hér auðveldar oft að hafa þessi hnattvæðingartengsl í huga. Við þeim verður ekki hróflað nú frekar en við tengslum Íslendinga við umheiminn í aldanna rás. Galdurinn felst hins vegar í því að greina hvað skiptir máli miðað við íslenskar aðstæður og hvað ber að láta fljóta áfram án þess því sé beitt á neikvæðan hátt án minnsta íslensks tilefnis.