14.12.2018 10:12

Rússneskur sendiherra á villigötum

Þetta syndaregistur Rússa er öllum opið. Þeir láta hins vegar jafnan eins og ekkert hafi „sannast“ á þá.

Rússneski sendiherrann á Íslandi áréttar öðru hverju upplýsingafalsanir stjórnar sinnar í íslenskum fjölmiðlum. Ein slík grein birtist á miðopnu Morgunblaðsins fimmtudaginn 13. desember.

Þar lætur sendiherrann, Anton Vasílev, eins og það sé alfarið á ábyrgð Bandaríkjastjórnar að INF-samningurinn svonefndi um takmörkun skammdrægra og meðaldrægra flauga sé í hættu. Staðreynd málsins er að 4. desember sl. gaf utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að loknum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna, Rússum 60 daga frest til að laga sig að ákvæðum samningsins ella áskildi Bandaríkjastjórn sér rétt til að rifta honum með sex mánaða fyrirvara og jafnframt að hefja þróun, framleiðslu og uppsetningu á eigin flaugum.

_77203775_77203774Flakið af MH17 farþegavélinni sem var grandað með rússnesku flugskeyti yfir austurhluta Úkraínu í júlí 2014.

Rússar hafa sett upp svonefndar Iskander-flaugar og með því brotið gegn INF-samningnum. Fyrst neituðu þeir tilvist flauganna síðan völdu þeir þann kost að tala um þær óljósum orðum og nú þyrla þeir upp moldviðri og ráðast á Bandaríkjastjórn í von um að fela brot sitt á þessum mikilvæga samningi og stofna framtíð hans í hættu.

Rök sendiherrans gegn ásökunum í garð Rússa vegna brota þeirra gegn INF-samningnum eru þau sömu og jafnan áður: Rússar hafi ekki fengið nein gögn afhent um brot þeirra! Þá upphefur sendiherrann kveinstafi um að Rússar séu sakaðir „um allar dauðasyndir, skipulega og rakalaust“. Lýsir hann síðan sakleysi Rússa vegna innrásar þeirra í Georgíu árið 2008, innlimunar Krímskaga árið 2014, flugskeytaárásarinnar á MH17 farþegavélina árið 2014, íhlutunar í bandarísku forsetakosningarnar árið 2016 og eiturefnaárásarinnar á Skripal-feðginin á Englandi árið 2018.

Þetta syndaregistur Rússa er öllum opið. Þeir láta hins vegar jafnan eins og ekkert hafi „sannast“ á þá. Öllum niðurstöðum rannsókna hafna þeir sem rangfærslum og er þar til dæmis nærtækt að nefna allt það sem fram hefur komið um árásina á MH17 farþegavélina sem var skotin niður með rússnesku flugskeyti yfir austurhluta Úkraínu í júlí 2014.

Vilji sendiherra Rússlands ögra sannleikanum og heilbrigðri dómgreind blaðalesenda á Íslandi heldur hann áfram að senda blöðunum greinar. Blöðin ættu hins vegar að gera lesendum sínum grein fyrir því að greinar sendiherrans eru liður í samræmdri aðgerð Kremlverja til að nýta sér mál- og prentfrelsi lýðræðisþjóða til að koma ár sinni fyrir borð með lygum og upplýsingafölsunum.