10.12.2018 10:39

Réttur farandfólks ræddur í Marrakesh

Á ráðstefnunni verður afgreidd ný samþykkt SÞ sem heitir Samþykktin um örugga, skipulagða og reglubundna fólksflutninga e. The Global Compact for Safe, Orderly and Regular Migration (GCM).

Í dag, mánudaginn 10. desember, hefst tveggja daga ríkisstjórna-ráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) í Marrakesh í Marokkó.

Á ráðstefnunni verður afgreidd ný samþykkt SÞ sem heitir Samþykktin um örugga, skipulagða og reglubundna fólksflutninga e. The Global Compact for Safe, Orderly and Regular Migration (GCM).

Upphaf málsins má rekja til leiðtogafundar undir merkjum SÞ um málefni flótta- og farandfólks á árinu 2016. Frá texta samþykktarinnar var gengið af 191 ríki á vettvangi SÞ í júlí 2018. Þá hafnaði Bandaríkjastjórn ein aðild að henni. Samþykktin hefur ekki lagalegt gildi en hins vegar pólitískt. Verður textinn lagður fyrir allsherjarþing SÞ til afgreiðslu. Markmið er að tryggja réttarstöðu farandfólks innan þessa alþjóðlega ramma.

Í samþykktinni er ákvæði þar sem „áréttaður er fullveldisréttur ríkja til að ákveða eigin farandmálastefnu og áskilinn réttur þeirra til að stjórna ferðum farandfólks innan eigin lögsögu í samræmi við alþjóðalög“.

Frá því sumar hefur stjórnvöldum ýmissa ESB-ríkja sem lögðu gjörva hönd á gerð yfirlýsingarinnar snúist hugur, þ. á m. Austurríki, Ungverjaland, Slóvakía, Tékkland, Pólland og Ítalía. Stjórnarkreppa varð í Belgíu vegna málsins.

Kanzlerin-merkel-bei-der-ankunft-in-marrakesch-unter-dem-dach-der-vereinten-nationen-un-will-die-internationale-gemeinschaft-einen-weltweiten-vertrag-zur-sicheren-geordneten-und-regulaeren-migrationAngela Merkel kemur til Marrakesh.

Verulegar umræður hafa einnig orðið um málið í Eistlandi, Króatíu, Búlgaríu, Þýskalandi og Hollandi auk Norðurlandanna. Rikisstjórnir Spánar, Bretlands og Frakklands styðja eindregið framgang málsins og sömu sögu er að segja um framkvæmdastjórn ESB.

Stjórnmálaskýrendur í Evrópu segja að breyttar áherslur ýmissa ESB-ríkisstjórna í málinu megi rekja til þess að innan ESB undirbúi stjórnmálamenn nú kosningarnar til ESB-þingsins eftir hálft ár. Umræður um málið á stjórnmálavettvangi innan einstakra ríkja séu vísbending um átakalínur í komandi ESB-kosningum þar sem stefnan í útlendingamálum og þar með afstaðan til farandfólks verði ofarlega á dagskrá.

Ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins er fulltrúi Íslands í Marrakesh. Gerðir verða ákveðnir fyrirvarar af Íslands hálfu við samþykktina þar sem túlkun Íslands verður áréttuð, í samræmi við það sem helstu grannríki gera. Í tilkynningu ríkisstjórnarinnar um málið sem birt var föstudaginn 7. desember segir:

„Efni samþykktarinnar er innan þess lagaramma og framkvæmdar sem nú þegar er í gildi á Íslandi og kallar lokaútgáfa hennar ekki á lagabreytingar. Þá er þátttaka í þessari samþykkt í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar um stuðning við mannréttindi og núgildandi framkvæmdaáætlun um málefni innflytjenda.“

Í umræðum um störf þingsins á alþingi þriðjudaginn 4. desember kvaddi Jón Þór Þorvaldsson, varaþingmaður Miðflokksins, sér hljóðs um þessa samþykkt SÞ og fullyrti að afleiðing hennar yrði „að landamæri Íslands munu opnast fyrir nánast öllum íbúum jarðar sem kjósa að flytja hingað burt séð frá stöðu“. Markmið samþykktarinnar sé „að fólksflutningar í heiminum séu gerðir aðgengilegir fyrir þá jarðarbúa sem þess æskja“.  Með aðild að henni sé „gengið gegn grundvallarmannréttindum, stjórnarskrá lýðveldisins og vegið [..] að grunninum, að frelsi einstaklingsins og vestrænu samfélagi“.

Enginn þingmaður vék að þessum ummælum varaþingmannsins enda var hugur þeirra sem tóku til máls um stjórn þingsins þennan dag að mestu bundinn við það sem fram kom á fundi þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins á Klaustur-bar að kvöldi þriðjudagsins 20. nóvember.

Augljóst er að Jón Þór Þorvaldsson áttar sig ekki til fulls á efni samþykktar SÞ auk þess sem skilningur hans á eðli fundarins í Marrakesh er rangur. Enn gefst tóm til að ræða þetta mál á alþingi áður en það verður lagt fyrir allsherjarþing SÞ.