18.10.2018 10:16

Græn rök VG en ekki rauð gegn NATO

Nú er það ekki rauði kjarni VG sem mótar stefnuna í varnar- og öryggismálum vinstri grænna heldur ráða þeir ferðinni sem hampa græna litnum.

Rökin fyrir afstöðu vinstri grænna (VG) gegn aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) taka breytingum þótt stefnan hafi staðnað. Í kalda stríðinu var augljóst hvað bjó að baki afstöðu Alþýðubandalagsins gegn NATO og bandaríska varnarliðinu. Flokkurinn var í því efni trúr uppruna sínum, andstöðu við vestrænt samstarf vegna stuðnings flokksins við Sovétríkin og utanríkisstefnu þeirra.

VG skipar sér ekki í hóp þeirra flokka í Evrópu sem vilja halla sér að Pútín og Rússlandi af hugsjónaástæðum. Nú er það ekki rauði kjarni VG sem mótar stefnuna í varnar- og öryggismálum vinstri grænna heldur ráða þeir ferðinni sem hampa græna litnum.

GetFile.php_1539857715192Þessi mynd Árna Sæbergs birtist á forsíðu Morgunblaðsins 18. október og sýnir bandaríska landgönguliða á æfingu á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli,

Í tilefni af því að landgönguliðar undir merkjum NATO ætla að feta í fótspor hermanna á árum áður og efna til útvistaræfingar í Þjórsárdal um helgina segir Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, í grein í Fréttablaðinu í morgun (17. október):

„Heræfingar eiga [...] alls ekki heima í íslenskri náttúru, viðkvæm sem hún er og æ ásetnari af fjölda gesta sem sækja landið heim í friðsamlegum tilgangi. [...]

Mikil uppræktun hefur átt sér þar [í Þjórsárdal] stað, enda veitir ekki af þar sem Hekla hefur reglulega dreift ösku og vikri yfir stór landsvæði. Svo rammt hefur að því kveðið að byggðin lagðist í eyði árið 1104 og hefur aldrei náð sér á sama strik síðan.

Hundruð hermanna að þramma þar um í hóp er ekki það sem náttúran þarf á að halda.[...]

Það hlýtur að vera skýlaus krafa að hermennirnir fari ekki um viðkvæm svæði, stundi engan utanvegaakstur og haldi sig á göngustígum. Og ef svo verður gert, þá má velta því fyrir sér hvað þeir eru að gera á þessu svæði, hvaða þjálfun er í því fólgin og hvort þeir ættu ekki bara að halda sig heima hjá sér?“

Þetta eru hófsamari rök í andstöðu við NATO og varnir landsins en samstaðan með Sovétmönnum á sínum tíma. Líklegt er að allar þessar ábendingar þingmanns VG verði teknar til greina af yfirstjórn þeirra sem senda hermennina í gönguferðina í Þjórsárdal. Þeir fara örugglega með meiri friði þar en félagar í Samtökum hernaðarandstæðinga sem boðað hafa fjölmenna „sögu- og menningarferð sína um Þjórsárdal n.k. laugardag“. Í ferðinni er ætlunin „að skoða náttúru og söguminjar á þessu fallega landssvæði. Meðal annars verður ítarlega fjallað um sögu Gauks Trandilssonar á Stöng, sem felur í sér sígildan boðskap um fánýti ofbeldis.“

Allt bendir til að mannlíf verði friðsælt í Þjórsárdal um helgina. Ekki verður sama sagt um veðrið rætist spár um það.