20.9.2018 10:45

Að vakna upp við flugmóðurskip

Viðbrögð við varnaræfingu NATO og ferð þingmanna í flugmóðurskip bera vott um áhuga- eða þekkingarleysi.

Utanríkisráðuneytið sendi í gær (19. sept.) frá sér ítarlega tilkynningu um varnaræfinguna Trident Juncture 2018. Þá bauð bandaríska sendiráðið utanríkisráðherra og fulltrúum úr utanríkismálanefnd alþingis að fljúga um borð í flugmóðurskipið Harry S. Truman suður af landinu.

A296f4662563c6fb220888248c0d34b6404557b10eabde521428c63983f2ae10_713x0Bandaríski sjóherinn sendi þessa mynd af flugtaki frá flugmóðurskipinu Harry S. Truman.

Á vefsíðunni visir.is var því slegið upp að þetta væri um leyniferð (!), ekki hefði verið sagt frá henni fyrirfram. Því svaraði Smári McCarthy, þingmaður Pírata og einn ferðalanganna, þannig á FB: „Það er auðvitað bull að þetta hafi verið leyniferð. En þetta er hluti af því að sinna eftirliti með framkvæmdarvaldinu. Og öryggismálum landins.“ Við þetta gerði einn lesandi Smára þessa athugasemd: „Mér finnst nú bara magnað að þeir hafi hleypt þér um borð yfirhöfuð.“

Eftir að fréttin um leyniferðina varð að engu var leitað til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og spurt hvort það væri ekki örugglega brot að tvær hervélar hefðu lent á Reykjavíkurflugvelli og sótt íslensku fyrirmennin. Dagur B. sagðist ætla að athuga málið.

Samhliða þessu stóðu tveir þingmenn VG upp á þingi.

Steinunn Þóra Árnadóttir sagði ekkert jákvætt við heræfingar. Þær væru „æfing í því hvernig eigi að ná völdum yfir og drepa fólk“. Leysa ætti mál á alþjóðavettvangi með öðrum hætti. Því miður væri krafa VG um Ísland utan NATO „minnihlutaskoðun“. Hún taldi þó jákvætt „hversu ítarleg fréttatilkynningin á vef utanríkisráðuneytisins“ um æfinguna væri.  

Kolbeinn Óttarsson Proppé sagði „við erum orðin hálffjarlæg því að við séum aðilar að hernaðarbandalagi“. Það væri orðin staðreynd í huga okkar margra. Þjóðin hefði aldrei fengið að segja skoðun sína á því.

Á næsta ári verður 70 ára afmæli aðildar Íslands að NATO. Að íslenska þjóðin hafi aldrei fengið að segja skoðun sína á aðildinni er jafnvitlaust og að segja að aldrei hafi verið tekist á um þetta mál á stjórnmálavettvangi eða tekin afstaða til þess í kosningum.

Vandi viðræðna við VG um þessi mál birtist í þeim orðum Steinunnar Þóru að aðgerðir til að verjast í hernaði snúist um „að ná völdum yfir og drepa fólk“. Þau sem þannig tala geta ekki hugsað til enda hvað felst í orðinu „fælingarmáttur“ og mega ekki til þess vita að „dregin sé lína í sandinn“. Skyldu þau láta hjá líða að kaupa sér tryggingu?