16.8.2018 10:03

Fjölmiðlar gegn Trump

Baráttan gegn Trump nær ekki aðeins til 350 bandarískra blaða heldur hafa til dæmis blöð í Danmörku lýst stuðningi við varnaraðgerðir bandarískra fjölmiðla gegn Trump.

Í bandarískum dagblöðum er í dag (16. ágúst) gripið til sameiginlegra andmæla gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta vegna þess hve oft hann hefur beint spjótum sínum að fjölmiðlum og gert lítið úr þeirra hlut. Blöðin árétta í forystugreinum sínum mikilvægi frjálsra fjölmiðla fyrir lýðræðið.

The Boston Globe hafði forgöngu um þetta sameiginlega átak blaðanna. Í leiðara blaðsins er forsetinn sakaður um að fara jafnan með þá þulu „að blaðamenn sem styðji ekki alfarið stefnu sitjandi ríkisstjórnar séu óvinir þjóðarinnar“.  Gegn slíkum ávirðingum verði að sporna. Þá segir blaðið að framganga Trumps gegn fjölmiðlum sé stjórnlyndum mönnum eins og Vladimír Pútín Rússlandsforseta og Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta hvatning til að líta á blaðamenn sem óvini.

Media-counters-trump-with-enemyofnone-campaignBaráttan gegn Trump nær ekki aðeins til 350 bandarískra blaða heldur hafa til dæmis blöð í Danmörku lýst stuðningi við varnaraðgerðir bandarískra fjölmiðla gegn Trump.

Í The New York Times birtist leiðari undir stórri fyrirsögn sem rituð er með hástöfum: FRJÁLS BLÖÐ ÞARFNAST ÞÍN.

Rifjað er upp að árið 1787 þegar bandaríska stjórnarskráin var samþykkt hafi Thomas Jefferson sagt í bréf til vinar síns: „Ætti ég að ákveða hvort ég vildi ríkisstjórn án dagblaða eða dagblöð án ríkisstjórnar, hikaði ég eitt augnablik við að velja síðari kostinn.“

Þetta var viðhorf hans áður en hann varð forseti. Eftir að hafa setið í Hvíta húsinu sagði Jefferson hins vegar: „Ekki er nú unnt að trúa neinu sem birtist í dagblaði. Sjálfur sannleikurinn verður grunsamlegur eftir að hafa verið settur í þá menguðu umgjörð.“

Blaðið segir skiljanlegt að Jefferson hafi liðið illa vegna þess að það sé óhjákvæmilegt að ekki séu allir sáttir við það sem birtist í blöðum. Höfundar stjórnarskrár Bandaríkjanna hafi á hinn bóginn skilið og virt nauðsyn þess að vel upplýstur almenningur væri best fær um að uppræta spillingu og stuðla að frelsi og réttlæti.

Hæstiréttur Bandaríkjanna hafi sagt árið 1964: „Það er pólitísk skylda að stuðla að opinberum umræðum.“ Þessar umræður yrðu að vera „óþvingaðar, kröftugar og opinskáar“ og í þeim mættu felast „beinskeyttar, stingandi og stundum óþægilega harðar árásir á stjórnvöld og opinbera embættismenn“.

Með mótmælunum í dag vilja bandarískir blaðamenn minna á þennan rétt sinn á tímum Donalds Trumps.